Metaðsókn á trúnaðarmannanámskeið

23. 09, 2022

Um 50 trúnaðarmenn á vinnustöðum Eflingarfélaga komu saman síðstliðinn miðvikudag á fyrsta trúnaðarmannanámskeiði starfsársins. Þetta er margfalt meiri fjöldi en sótt hefur námskeiðin á síðustu árum.

Dagskráin hófst 8:30 og stóð til um hálf fjögur um eftirmiðdaginn. Kennslan fór fram í glæsilegu Félagsheimili Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1.

Fjölbreytt dagskrá

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar setti námskeiðið í upphafi dagskrár. Að því búnu fjallaði Ingólfur B. Jónsson sviðsstjóri vinnuréttindasviðs um orlofsréttindi, og þátttakekendur æfðu sig í útreikningi orlofs. Því næst flutti Stefán Ólafsson sérfræðingur Eflingar í lífskjararannsóknum fyrirlestur sem byggður er á fyrstu köflum væntanlegrar bókar hans Baráttan um bjargirnar, sem fjallar m.a. um áhrif verkalýðshreyfingarinnar á uppbyggingu íslenska velferðarríkisins.

Að loknum hádegismat gerðu þátttakendur léttar jógaæfingar undir leiðsögn Eyglóar Egils sem kennir hjá Jakkafatajóga. Mikil ánægja var með þetta uppbrot á krefjandi dagskrá. Að því loknu fjallaði Viðar Þorsteinsson fræðslu- og félagsmálastjóri um komandi kjarasamningagerð og ræddi um mikilvægt hlutverk trúnaðarmanna í tengslamyndun innan félagsins.

Áhugi á kjarakönnun

Fjallað var um kjara- og viðhorfskönnun félagsmanna sem nú stendur yfir. Aldrei hafa jafn margir félagar tekið þátt og nú, en á námskeiðinu var einhugur um að fjölga þátttakendum enn meira. Trúnaðarmenn ræddu sín á milli í umræðuhópum um hvernig þeir gætu fjölgað svarendum á sínum vinnustað. Trúnaðarmenn fengu plaköt og bæklinga með upplýsingum um könnunina til að taka með sér á sinn vinnustað.

Borðaður var staðgóður heitur hádegismatur og boðið upp á hressingu í kaffihléum. Glærukynningar voru tvítyngdar á íslensku og ensku, og jafnframt var túlkað milli íslensku og ensku með texta-túlkun á skjá.

Mikil ánægja þátttakenda

Að loknu námskeiði fylltu þátttakendur út stutta könnun um upplifun sína af námskeiðinu. Dæmi um ummæli úr könnuninni:

  • „Góð mæting og jákvætt í fólkinu.“
  • „Það gekk mjög vel.“
  • „Flott.“
  • „… we will achieve more if we go on this path. Involving more foreigners.“
  • „Frábært námskeið.“
  • „Góður matur, gott yoga og gott andrúmsloft.“
  • „Very interesting and interactive with other people, the time for the topics was good, not so exhausted.“
  • „Atmosphere was great.“
  • „I liked Stefán’s book chapter intro, the food was excellent, and the pauses well spaced.“
  • „Very enjoyable.“
  • „Erindin voru mjög góð.“
  • „Vel að öllu staðið, hugsað mikið um okkur sem sóttum námskeiðið.“
  • „Frábært að fræðast um orlofsréttindi.“
  • „Geggjað að fá jakkafatajóga.“
  • „Frábært.“
  • „Vel gert.“
  • „Þetta var frábært.“
  • „Thank you!!“

Nýtt fyrirkomulag

Jafnframt lýstu þátttakendur ánægju með fyrirkomulag námskeiðsins, en það er nýjung að halda þau mánaðarlega og að bjóða öllum trúnaðarmönnum gömlum sem nýjum þátttöku á þeim. Einnig lýstu þátttakendur ánægju með skiptingu í umræðuhópa og tækifærin sem gáfust fyrir trúnaðarmenn til að kynnast og ræða sín á milli um ýmis mál.

Framvegis verða námskeiðin haldin einu sinni í mánuði, heilan dag í senn, á tímabilinu september til maí. Þannig verða snertingar trúnaðarmanna við félagið og hver við annan tíðari, auk þess sem færi gefast á símenntun.

Svipmyndir

Næstu námskeið

Allar upplýsingar um trúnaðarmannanámskeiðin, sem halda áfram mánaðarlega í allan vetur, eru á vef Eflingar.

Dagsetning næsta námskeiðs er miðvikudagurinn 19. október. Allir trúnaðarmenn eru hvattir til að skrá sig! Nánari upplýsingar og aðstoð veitt á netfanginu felagsmal@efling.is.