Kröfugerð Eflingar birt

31. 10, 2022

Efling – stéttarfélag afhenti í dag Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sem samþykkt var einróma á fundi samninganefndar félagsins í gær.

Í kröfugerðinni er farið fram á hækkun allra mánaðarlauna um samtals 167 þúsund krónur á þriggja ára samningstíma. Hækkunin verði krónutöluhækkun sem leggist jafnt á öll laun í þrepum, að fyrirmynd Lífskjarasamninganna. Hækkunin tryggir aukinn kaupmátt launa sem eru undir meðallaunum miðað við núverandi verðbólgu og verðbólguspár, auk þess að verja kaupmátt meðallauna.

Hluti þeirra hækkana sem krafist er snýr að því að leiðrétta það ástand að laun verka- og láglaunafólk dugi ekki til framfærslu samkvæmt opinberum viðmiðum. Með hækkunum kröfugerðarinnar er hlutdeild láglaunafólks í hagvexti tryggð, og spornað gegn launaskriði í efri lögum samfélagsins. Vísað er til jákvæðs árangurs af krónutöluhækkunum á samningstíma Lífskjarasamningsins.

Samninganefnd Eflingar hefur lagt mikla vinnu í undirbúning kröfugerðarinnar og hist á samtals fjórum fjölsóttum fundum síðastliðna viku. Þá hafa yfir 4500 Eflingarfélagar átt þátt í mótun kröfugerðar með þátttöku sinni í kjara- og viðhorfskönnun félagsins.

Fyrsti samningafundur Eflingar með Samtökum atvinnulífsins er áformaður næstkomandi föstudag í Félagsheimili Eflingar.

„Verkefni næstu þriggja ára er skýrt í okkar huga. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut að ná fram kjarabótum fyrir félagsfólk Eflingar. Það þarf að verja launin okkar gegn verðhækkunum á lífsnauðsynjum og það þarf að vinda ofan af hallarekstri á heimilum láglunafólks. Leið krónutöluhækkana hefur sannað sig sem besta leiðin að þessum markmiðum. Algjör eining var meðal samninganefndar Eflingarfélaga um kröfugerðina,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sem jafnframt er formaður samninganefndar.

Kröfugerð í heild sinni á PDF formi.