Efling – stéttarfélag vísaði í dag kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Samkvæmt því sem fram kemur í erindi Eflingar embættisins hafa viðræður milli aðila samkvæmt viðræðuáætlun þeirra reynst árangurslausar. Samkvæmt 24. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur er hvorum aðila fyrir sig í kjaradeilu heimilt að vísa deilu til ríkissáttasemjara. Þegar deilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara tekur hann við stjórn samningaviðræðna.
„Við erum eina félagið sem hefur sett fram kröfugerð með tölusettum launakröfum. Við höfum verið opinská og heiðarleg við okkar viðsemjendur. Áhuga- og virðingarleysi Samtaka atvinnulífsins gagnvart félagsfólki Eflingar er hins vegar algjört. Okkur eru ekki veitt svör eða viðbrögð. Það er því rétt og óhjákvæmilegt að vísa deilunni til ríkissáttasemjara eins og heimilað er í lögunum um kjaraviðræður,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Samningafundur hefur ekki verið boðaður.