Stjórn Eflingar – stéttarfélags samþykkti í dag eftirfarandi ályktun:
Launahækkanir í samningi Starfsgreinasambandsins (SGS) eru að mati Eflingar ófullnægjandi fyrir verkafólk á Höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu.
Kaupmáttarrýrnun ársins 2022 er óbætt í samningnum. Hann mun auk þess ekki skila sambærilegri kaupmáttaraukningu á næsta ári og Lífskjarasamningurinn gerði. Er hér miðað við fyrirliggjandi verðbólguspár (um 6%).
Þá er ekki tekið tillit til þess að hagvöxtur var einungis um 2,4% við undirritun Lífskjarasamningsins árið 2019. Hagvöxtur er nú miklu hærri eða nálægt 7%. Miklu meira er því til skiptanna nú. Launafólk á að fá sinn hlut af þessum mikla hagvexti.
Kauphækkun í SGS-samningnum er mest í þeim hópum verkafólks sem hefur lengstan starfsaldur hjá sama fyrirtæki. Eflingarfélagar eru almennt með styttri starfsaldur hjá sama fyrirtæki og fengju því minna út úr launatöflu SGS en verkafólk á landsbyggðinni. Þá virðist SGS-samningurinn vera ásættanlegri fyrir fiskvinnslufólk en aðra, en sá hópur er að mestu leyti á landsbyggðinni en hverfandi hluti Eflingar-fólks á suðvestur horninu.
Þá er framfærslukostnaður mun meiri á höfuðborgarsvæðinu, einkum húsnæðiskostnaður. Nýr kjarasamningur fyrir Eflingarfélaga þarf að taka tillit til þessara atriða.
——–
Sjá einnig nánari umfjöllun um SGS-samninginn og samanburð við Lífskjarasamninginn í grein Stefáns Ólafssonar.