Yfir 30 félagsmenn Eflingar hjá Samskipum mættu á félagsmannafund í Félagsheimili Eflingar síðastliðinn föstudag. Efni fundarins var að samþykkja kröfugerð og skipa samninganefnd vegna endurnýjunar á vinnustaðasamningi.
Trúnaðarmaður ásamt hópi starfsmanna höfðu áður haldið þrjá undirbúningsfundi í nóvember með formanni og starfsfólki skrifstofu Eflingar. Þar var farið yfir tillögur að kröfum og unnið að undirbúningi félagsmannafundarins. Jafnframt var unnin greiningarvinna á þróun sérkjarasamninganna á liðnum árum.
Þessi undirbúningsvinna var kynnt á fundinum. Góðar umræður voru, þar sem margir félagsmenn tóku máls. Gerðar voru ýmsar breytingar á drögum að kröfugerð og lokagerð hennar að endingu samþykkt einróma. Þá fengust mörg framboð í samninganefnd og var tillaga að samsetningu hennar jafnframt samþykkt einróma.
Kröfugerð félagsmanna verður send á Samskip á næstu sólarhringum ásamt með ósk um upphaf viðræðna.