Eflingarfélagar hjá Brim funduðu um kjaramál sín

Á mánudaginn síðastliðinn var haldinn fjölsóttur vinnustaðafundur Eflingarfélaga hjá Brim við Reykjavíkurhöfn þar sem stór hópur fiskverkafólks starfar. Boðað var til fundarins í samstarfi við öflugan trúnaðarmann vinnustaðarins og yfirmenn. Fundurinn var fjölmennur og vel heppnaður í alla staði.

Efni fundarins var að kynna kröfugerð Eflingar gagnvart Samtökum atvinnulífsins og störf samninganefndarinnar. Sólveig Anna Jónsdóttir mætti á fundinn og sagði frá gangi kjaraviðræðnanna. Eftir það svöruðu þau Ragnar Ólason spurningum úr sal. Það sköpuðust góðar umræður þar sem margir Eflingarfélagar hjá Brimi tóku til máls. Fundarmenn voru sammála um að víða væri pottur brotinn, en enginn barlómur var í þeim heldur einbeittur vilji til að standa fast við kröfugerð Eflingar í kjaraviðræðunum.

Eflingarfélagar hjá Brim fjölmenntu á fundinn þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Ólason sátu fyrir svörum.