Efling kærir miðlunartillögu til ráðuneytis

Efling – stéttarfélag lagði í dag 30. janúar fram stjórnsýslukæru til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna svonefndrar miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Er þess krafist að miðlunartillagan verði felld úr gildi.

Málsástæður kærunnar eru skortur á samráði við Eflingu, sem aðila að kjaradeilu, sem ber að viðhafa samkvæmt 27. og 28. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Einnig er vísað til annarra lagaákvæða um samráðsskyldu og andmælarétt við töku íþyngjandi ákvarðana hins opinbera.

Þá er bent á skort á réttmæti, meðalhófi og jafnræði við töku ákvörðunarinnar, og er þar vísað bæði til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Að lokum er bent á vanhæfi ríkissáttasemjara, sem vegna framgöngu sinnar getur ekki talist „óvilhallur“ í deilunni líkt og áskilið er í 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum miðlunartillögunnar verði frestað meðan á meðferð kærunnar stendur.

Texti kærunnar í heild (PDF skjal).