Lægri heildarlaun verkafólks á höfuðborgarsvæðinu

19. 01, 2023

Heildarlaun verkafólks eru 21.000 krónum hærri á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt kjarakönnunum Gallup fyrir Einingu-Iðju á Akureyri og sambærilegri könnun fyrir Eflingu á höfuðborgarsvæðinu eru bæði dagvinnulaun og heildarlaun verkafólks hærri á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu. Munur heildarlauna er 21.000, verkafólki á Akureyri í vil.

Þetta er þrátt fyrir að meðallengd vinnuvikunnar sé markvert lengri hjá Eflingarfólki. Fullvinnandi Eflingarfólk er að jafnaði með 45,7 klst. á viku en hjá Einingu-Iðju er vinnuvikan að jafnaði 44 klst. á viku.

Báðar kannanir voru gerðar síðastliðið haust, áður en nýir kjarasamningar voru gerðir. Könnun Einingar-Iðju nær til launa og vinnutíma í september og könnun Eflingar nær til launa og vinnutíma í ágúst.

Niðurstöðurnar má sjá á meðfylgjandi myndum.

Heildarlaun eru dagvinnulaun að viðbættum álagsgreiðslum, bónusum og yfirvinnu – fyrir skatt. Kannanirnar meðal félagsmanna hvors félags eru framkvæmdar á svipaðan hátt og ættu því að vera ágætlega sambærilegar. Lengd vinnuvikunnar miðast við fullvinnandi fólk.

Þegar dreifing heildarlauna er skoðuð kemur skýrlega í ljós að Eflingarfólk býr í meiri mæli við lægstu laun en stærri hluti félagsmanna Einingar-Iðju fer upp í hærri launabil. Þetta er sýnt á næstu mynd.

Kjarastaða Eflingarfólks einkennist af því, að það býr við mun meiri húsnæðiskostnað en annars staðar þekkist á landinu og hefur lægri laun en sambærilegur hópur á Akureyrarsvæðinu – þrátt fyrir að vinnuvika Eflingarfólks sé hátt í tveimur tímum lengri að jafnaði. Það er því augljóslega mun erfiðara fyrir félagsmenn Eflingar að ná endum saman á sínu vinnusvæði.

Þess vegna þarf Efling meiri launahækkun en fékkst í SGS samningnum frá því fyrir jól. Í ljósi ofangreinds munar og mikils munar á húsnæðiskostnaði er krafa Eflingar um nýja launatöflu og sérstaka framfærsluuppbót upp á 15.000 krónur mjög hófleg – ef ekki beinlínis of lítil. Þetta hljóta allir að sjá.