Efling fagnar niðurstöðu Félagsdóms – verkföll lögleg og hefjast á morgun

Sigur í Félagsdómi

Efling – stéttarfélag fagnar niðurstöðu Félagsdóms sem kveðin var upp í dag, þar sem félagið var sýknað af kröfu Samtaka atvinnulífsins um afboðun verkfallsaðgerða. Verkfallsaðgerðir félagsins eru því löglegar og halda þær áfram samkvæmt áætlun.

Verkfall á hótelum Íslandshótela hefst klukkan 12 á morgun þriðjudag. Atkvæðagreiðslur um verkföll hjá bílstjórum og starfsfólki Edition og Berjaya hótelanna halda áfram ótrauðar.

Málatilbúnaður SA fyrir Félagsdómi gekk út á að framlagning miðlunartillögu fæli í sér ígildi kjarasamnings sem skapaði þar af leiðandi friðarskyldu og gerði verkföll ólögleg. Þessu hafnaði Félagsdómur réttilega.

Dómur Félagsdóms.

Greinargerð Eflingar til Félagsdóms.

Dómur Héraðsdóms kærður til Landsréttar samstundis

Einnig féll annar dómur tengt kjaradeilu félagsins við SA í Héraðsdómi í dag. Samkvæmt þeim dómi er félagið skikkað til afhendingar á kjörskrá vegna miðlunartillögu Ríkissáttasemjara.

Efling kærði þessa niðurstöðu samstundis til Landsréttar, krefst flýtimeðferðar og mun skila öllum gögnum vegna kærunnar strax á morgun þriðjudag.

Jafnframt hefur Efling höfðað dómsmál fyrir Héraðsdómi þann 3. febrúar síðastliðinn gegn ríkissáttasemjara, þar sem ógildingar miðlunartillögunnar er krafist.

Efling krefst þess að andmæli félagsins gegn umdeildri miðlunartillögu ríkissáttasemjara fái fulla og sanngjarna meðferð fyrir dómstólum, enda lögmæti hennar verulegum vafa undirorpið.

Marklaus og löglaus miðlunartillaga

Efling hefur frá upphafi hafnað lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem lögð var fram þvert á ákvæði laga um að ráðgast bera við deiluaðila.

Miðlunartillagan er auk þess í einu og öllu samhljóða kröfum Samtaka atvinnulífsins og getur því vart staðið undir nafni sem miðlunartillaga. Er hún því bæði markleysa og lögleysa.

Öll heildarsamtök launafólks á Íslandi hafa gagnrýnt meðhöndlun ríkissáttasemjara á málinu, þar á meðal Alþýðusamband Íslands í harðorðri yfirlýsingu sem birt var 26. janúar.