Ný viðbót – Launareiknivél Eflingar

15. 09, 2023

Á vef Eflingar er nú hægt að nálgast launareiknivél fyrir félagsfólk sem starfar á almenna markaðnum og nær því til um 84% félagsfólks eða um 35.000 manns. Þar er hægt að reikna út laun og bera saman við launaseðla frá atvinnurekanda.

Launareiknivélin er næsta skref Eflingar í þeirri vegferð að einfalda félagsfólki aðgengi og yfirsýn yfir kaup og kjör hratt og örugglega, hvaðan sem er. Hún hjálpar félagsfólki að sjá hvort launin séu rétt reiknuð eða hvort misræmi sé þar á. Reiknivélin nýtist einnig launagreiðendum til að reikna út laun starfsfólks síns til að vera viss um að þau séu rétt reiknuð.

Til þess að reikna út rétt laun í launareiknivélinni er hægt að skrá mánaðarlaun eða tímalaun eftir hvað við á. Svo er hakað við viðeigandi tímafjölda eftir hvaða kjarasamning starfsgrein félagsmannsins fellur undir. Reiknivélin býður upp á að velja hvaða vaktaálagsprósentu sem á við hverju sinni. Til að reikna út annars konar greiðslur eins og húsaleigu greidda til atvinnurekanda eða fyrirframgreidd laun er það einnig hægt í reitnum Aðrar greiðslur / frádráttur.

Nánar er farið í leiðbeiningar á notkun reiknivélarinnar í sérstökum útskýringum hér sem við mælum með að hver og einn lesi yfir áður en reiknivélin er notuð.