Algjör samstaða gegn félagslegum undirboðum Grundarheimilanna

Algjör samstaða er meðal starfsfólks Grundarheimilanna um að krefjast starfanna sinna aftur.

Algjör samstaða er meðal starfsfólks Grundarheimilanna sem sagt var upp störfum í síðustu viku um að krefjast þess að uppsagnir þeirra verði dregnar til baka.

Starfsfólki var boðið sem heiðursgestum á fund Trúnaðarráðs Eflingar í gærkvöldi, fimmtudaginn 5. október. Þar var samþykkt ályktun þar sem uppsagnirnar voru fordæmdar. Texti ályktunarinnar er hér fyrir neðan ásamt myndum.

Starfsfólk hefur birt skilaboð til stjórnenda Grundarheimilanna á Facebook-síðu Eflingar. Skilaboðin má sjá hér: https://www.facebook.com/reel/651069787137086

Starfsfólkið hittist einnig á þriðjudaginn 3. október á Hótel Örk með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Á fundinum var kosin samráðsnefnd sem mun skipuleggja aðgerðir gegn uppsögnunum í samráði við félagið. Fyrir neðan er mynd af fundinum.

Lögmaður sendi f.h. Eflingar í byrjun vikunnar Gísla Páli Pálssyni stjórnarformanni Grundarheimilanna bréf þar sem óskað var skýringa varðandi tildrög og ástæður uppsagnanna. Bréfið má lesa hér.

Vistmenn á Dvalarheimilinu Ási og vinnufélagar starfsfólksins hafa að eigin frumkvæði safnað undirskriftum þar sem uppsögnum er mótmælt harðlega og endurskoðunar þeirra krafist. Undirskriftir hafa verið afhentar forstjóra Grundarheimilanna. Mynd af texta undirskriftasöfnunarinnar er fyrir neðan.

Ályktun trúnaðarráðs

Trúnaðarráð Eflingar fordæmir harðlega fjöldauppsagnir sem beinast gegn Eflingarfélögum á starfsstöðvum Grundarheimilanna í Hveragerði . Trúnaðarráð krefst þess að uppsagnirnar verði dregnar til baka.

Þessi grimmilega aðgerð þýðir að hátt í 30 Eflingarfélagar, sumir með meira en 30 ára starfsreynslu, munu missa vinnuna. Þeir munu horfa upp á störfin sín lenda í höndum einkarekinna þrifafyrirtækja sem bjóða starfsfólki verri kjör og réttindi.

Með þessu hyggjast Grundarheimilin koma sér hjá að veita starfsfólki sínu dýrmæt réttindi tengd veikindum, orlofi og uppsagnarvernd sem verkafólk hefur barist fyrir og áunnið sér á liðnum áratugum.

Trúnaðarráð lýsir djúpri hneykslun á því að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé skuli brjóta með þessum svívirðilega hætti á verkafólki og stunda þannig í reynd félagsleg undirboð í sinni ógeðfelldustu mynd. Trúnaðarráð krefst þess að heilbrigðisráðherra axli ábyrgð á þessari þróun.

Trúnaðarráð styður starfsfólk Grundarheimilanna heils hugar og lýsir aðdáun á baráttu þeirra. Allar dyr félagsins standa þeim opnar og verður engu til sparað til að knýja á um þá kröfu að uppsagnirnar verði dregnar til baka.

Samþykkt einróma á fundi Trúnaðarráðs Eflingar haldinn í Félagsheimili Eflingar 5. október 2023.