Stjórn Eflingar samþykkti í dag 9.11.2023 eftirfarandi ályktun:
Stjórn Eflingar fordæmir þjóðernishreinsanir ísraelska ríkisins á Gaza
Ísland getur ekki setið hjá á meðan ísraelska ríkið stundar þjóðernishreinsanir í Palestínu. Þau skelfilegu morð sem að nú eru framin á almennum borgurum, börnum, konum og mönnum eru glæpur gegn mannkyni. Ísraelski herinn eirir engu: Spítalar, skólar og flóttamannabúðir eru sprengdar í loft upp. Læknar, blaðamenn og starfsfólk alþjóðlegra stofnana er myrt í hundraða tali. Við berum öll ábyrgð á því að stöðva slík grimmdarverk og brot á alþjóðalögum. Við berum öll ábyrgð á því að stöðva þá glæpi gegn mannkyni sem nú eru framdir á saklausu fólki á Gaza.
Stjórn Eflingar fordæmir þjóðernishreinsanir ísraelsku ríkisstjórnarinnar gegn palestínsku þjóðinni. Stjórn Eflingar krefst þess að íslensk stjórnvöld tali skýrt fyrir vopnahléi á Gaza. Stjórn Eflingar krefst fullra mannréttinda og jafnréttis frammi fyrir lögunum fyrir fólk af öllum uppruna í Palestínu og Ísrael, endaloka á ólöglegu hernámi á Vesturbakkanum og Gaza og viðurkenningar á rétti flóttafólks til að snúa aftur til heimkynna sinna.
Stjórn Eflingar hefur samþykkt að styrkja Félagið Ísland Palestína um 500.000 krónur. Stjórn Eflingar skorar á stjórnir annarra verkalýðsfélaga að gera slíkt hið sama.