Stjórnarmenn Eflingar fordæma rógburð framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra Gildis gegn Ragnari Þór Ingólfssyni

Við undirrituð, stjórnarmenn í Eflingu stéttarfélagi sem vorum viðstödd mótmæli í höfuðstöðvum Gildis þann 30. nóvember, fordæmum rógburð, ósannindi og árásir á mannorð Ragnars Þórs Ingólfssonar af hálfu yfirmanna skrifstofu Gildis lífeyrissjóðs.

Nákvæmlega ekkert er hæft í þeim alvarlegu ásökunum sem Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri og Bjarney Sigurðardóttir skrifstofustjóri Gildis setja fram í bréfi sínu til stjórnar VR í gær 4. desember. Í bréfinu er því haldið fram að á friðsamlegum mótmælum 30. nóvember hafi starfsfólki Gildis verið „ógnað á vinnustaðnum“, það orðið fyrir „andlegu ofbeldi“ og „[lokast] inn í rými með ógnandi aðila“.

Þessar lýsingar á atvikum eru fjarstæðukenndur uppspuni eins og tugir einstaklinga sem voru viðstödd mótmælin eru til vitnis um. Þetta er jafnframt hægt að staðfesta með fjölda ljósmynda og myndbanda sem tekin voru upp á staðnum. Mótmælin beindust augljóslega ekki gegn almennu starfsfólki Gildis heldur stjórnendum sjóðsins, og þau litlu samskipti sem fóru fram við almennt starfsfólk sjóðsins voru í alla staði kurteisleg. Þetta veit Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis vel, enda var hann viðstaddur allt sem fram fór.

Það að verkafólk sem greiðir í Gildi og lýðræðislega kjörnir fulltrúar þeirra þurfi að sitja undir grófum, ósönnum ásökunum af hálfu hálaunaðra stjórnenda sjóðsins um „ofbeldi og áreitni“ fyrir þá sök eina að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla er með öllu óásættanlegt. Það er hneyksli að háttsettir stjórnarmenn Gildis skuli beita slíkum aðferðum til að þagga niður í gagnrýni.

Hálaunafólk, auðmannastéttin og valdastofnanir á Íslandi hafa á liðnum árum fært sig æ meira upp á skaftið. Þau hafa vanist því að starfa án aðhalds, án gagnrýni og án afleiðinga af gjörðum sínum. Óþol þeirra fyrir aðhaldi almennings er nú komið á það stig að þau eru tilbúin að útmála heilbrigð, málefnaleg og lýðræðisleg skoðanaskipti sem ofbeldi og áreitni. Þessi afbökun og útvötnun orðanna er lítilsvirðandi við þá sem í raun hafa þurft að þola ofbeldi og áreitni. Við gerum þá kröfu til stjórnenda Gildis að þeir gæti orða sinna og virði eðlileg mörk þegar kemur að lágmarksvirðingu við heiður og æru fólks.

Við fordæmum með öllu þá ákvörðun Árna Guðmundssonar framkvæmdastjóra og Bjarneyjar Sigurðardóttur skrifstofustjóra Gildis að ráðast með ósannindum að okkur sem tókum þátt í friðsamlegum mótmælum í höfuðstöðvum sjóðsins þann 30. nóvember. Lúalegar árásir þeirra á Ragnar Þór Ingólfsson eru um leið árás á okkur, á sjóðfélaga frá Grindavík og aðra þá sem tóku þátt í umræddum mótmælum.

Undirritað:

Sólveig Anna Jónsdóttir
Þórir Jóhannesson
Ísak Jónsson
Guðbjörg María Jósepsdóttir
Kolbrún Valvesdóttir
Michael Bragi Whalley
Guðmunda Valdís Helgadóttir
Karla Esperanza Barralaga Ocon
Olga Leonsdóttir
Sæþór Benjamín Randalsson