Sólveig Anna bjartsýn á undirritun sögulegs kjarasamnings

Í komandi kjarasamningaviðræðum gerir Efling kröfu um að barnabóta-, vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfi hins opinbera verði endurreist. Hækkanir á greiðslum úr þeim kerfum geta, að töluverðu leyti, komið í stað launahækkana og eru í raun verðmætari en þær, þar sem hver króna sem rennur úr þessum kerfum til launafólks er skattfrjáls. Takist að ná þeim kröfum fram gagnvart ríkinu, ásamt því að samið verði um hóflegar krónutöluhækkanir launa í langtímasamningum, er gríðarlega mikið unnið.

Þetta kemur fram í ávarpi Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem sjá má hér í fréttinni. Í ávarpinu rekur Sólveig Anna aðdraganda þess að Efling hafi ákveðið að taka þátt stóru samfloti innan ASÍ, breiðfylkingu félaga sem eru fulltrúar um 93 prósenta félagsmanna ASÍ. Markmiðið er að knýja á um kjarasamninga sem hafa raunveruleg áhrif á kjör félagsmanna Eflingar.

Hækka verður bætur

Efling tók ákvörðun í haust um að reyna að byggja upp stórt samflot með öðrum félögum í ASÍ. Reynsla síðasta vetrar sýndi að klofin og stefnulaus verkalýðshreyfing náði ófullnægjandi árangri. 

Í viðræðum innan ASÍ lagði Sólveig Anna áherslu á að kjarasamninga þyrfti að gera til langs tíma og með flötum krónutöluhækkunum, enda tryggja þær láglaunafólki hlutfallslega mestar hækkanir og stuðla að auknum jöfnuði. 

Í viðræðunum innan ASÍ í haust beitti Efling sér einnig fyrir því að krafa yrði gerð um leiðréttingu á barnabóta-, vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfunum. Upphæðir bótanna eru of lágar og skerðingarmörk þeirra einnig of lág. „Verðmæti allra þessara bóta er aftur á móti mjög mikið, vegna þess að þetta eru skattfrjálsar krónur, ólíkt laununum okkar,“ segir Sólveig Anna. Hækkanir á greiðslum úr þessum kerfum geta að verulegu leyti komið í stað launahækkana. 

Lækkun verðbógu gríðarlegt hagsmunamál

Sólveig Anna segir að veðjað hafi verið á að ríkið væri tilbúið að fara í slíkar aðgerðir, gegn því að kjarasamningar myndu styðja við samstilltar aðgerðir annarra í þjóðfélaginu gegn verðbólgu. Í því samhengi skipti miklu máli að Efling vilji gera krónutölusamninga. Þeir minnki líkur á launaskriði hinna hæst launuðu og þar með ofþenslu og verðbólgu. 

„Við sáum fyrir okkur að ef við myndum setja fram trúverðuga áætlun og sækja fram með trúverðugum tillögum gæti teiknast upp sú staða að verðbólga gæti farið að lækka hratt og Seðlabankinn gæti þá jafnframt farið að lækka vexti. Öll okkar sem eru með húsnæðislán og höfum séð hvernig afborganir hafa stökkbreyst eftir að vaxtahækkanaferli Seðlabankans fór af stað skiljum auðvitað mikilvægi þess að ná vöxtum niður,“ segir Sólveig Anna í ávarpi sínu. 

Jákvæð viðbrögð

Niðurstaðan varð sú að Efling, VR, Starfsgreinasambandið (SGS), Samiðn og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) tóku ákvörðun um að standa saman að kjarasamningsgerð með þessum kröfum. Auk þess er krafist að gerðar verði úrbætur í málefnum leigjenda og að í samningunum verði ströng ákvæði um lækkun verðbólgu og vaxta. Mikilvægi þess að þessi fimm félög hafi myndað breiðfylkingu er verulegt, enda eykur það mjög  líkurnar að takast megi að ná fram markmiðum gagnvart Samtökum atvinnulífsins (SA) og ríkisstjórninni. 

Fyrsti samningafundurinn með SA fór fram milli jóla og nýárs. Á þeim fundi var strax sleginn jákvæður tónn með því að samþykkja sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað var eftir því að haldið yrði aftur af verðhækkunum og gjaldskrárhækkunum. Sólveig Anna segir jafnframt að þá hafi orðið ljóst að SA væru líkleg til að styðja við tillögur breiðfylkingarinnar. 

Þá hefur breiðfylkingin þegar fundað með ríkisstjórninni þar sem tillögur hennar að aðkomu ríkisins voru kynntar. Sá fundur, líkt og aðrir upp á síðkastið, var jákvæður og gefur tilefni til bjartsýni.

Eflingarfólk er ómissandi

„Ég veit að ein ástæðan fyrir því að við erum komin á þann stað sem við erum á er auðvitað ekki síst þrautseigja og þolinmæði, baráttuvilji og hugrekki Eflingarfélaga á síðust árum, þar sem Efling og Eflingarfélagar hafa sýnt ítrekað að þau eru tilbúin til að berjast sameinuð fyrir betri tilveruskilyrðum fyrir sig. Ég veit að viðsemjendur okkar og Alþýðusambandið bera í dag virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum Eflingar og Eflingarfólks. Ég skynja það í samskiptum og skynja það á fundum. Og það er auðvitað allt ykkur að þakka kæru Eflingarfélagar sem hafið lagt svo hart að ykkur í því sem á hefur gengið síðustu misseri,“ segir Sólveig Anna. 

Næsti samningafundur breiðfylkingarinnar og SA er í dag og á morgun verður annar fundur milli samninganefndar Eflingar og SA um sérkröfur Eflingar.

Sólveig Anna mun áfram halda Eflingarfélögum upplýstum um gang og stöðu kjaraviðræðna með myndböndum á borð við þetta. Hún hvetur alla Eflingarfélaga til að senda spurningar á netfang hennar, solveiganna@efling.is, og mun hún eftir bestu getu reyna að svara þeim í næsta myndbandi.

„Ég hlakka til að sjá hvað gerist hér á næstu dögum og vikum,“ segir Sólveig Anna að lokum.