Sólveig Anna telur bakland SA ekki marsera í takt (Myndband)

26. 01, 2024

„Ég held að ástæðan fyrir því að Samtök atvinnulífsins breyta þarna um kúrs hafi ekkert með Grindavík að gera. Ég held að þau hafi kannski bara signalerað of mikla jákvæðni í upphafi sem að var svo kannski ekki innistæða fyrir í þeirra röðum.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um hvort að náttúruhamfarirnar í Grindavík og fyrirséð þörf á stuðningi til handa íbúum þar hafi valdið því að Samtök atvinnulífsins (SA) hafi hert tóninn í kjarasamningaviðræðunum við breiðfylkingu verkalýðsfélaga og landssambanda. Sem síðan varð til þess að breiðfylkingin ákvað að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Sólveig Anna var gestur Gunnars Smára Egilssonar við Rauða borðið á Samstöðinni í gær og fór þar yfir stöðu kjaraviðræðna og horfur. Horfa má á þáttinn neðst í þessari frétt. Hún sagði meðal annars að um margt væri jákvætt að kjaradeilan væri komin inn á borð ríkissáttasemjara, með því skapaðist ákveðið aðhald og rammi sem vinna þyrfti eftir.

„Auðvitað þýðir þetta líka það þegar við erum búin að vísa þá náttúrulega erum við komin nær því, ef það gerist, að geta slitið, og það vita auðvitað allir hvað það þýðir,“ sagði Sólveig Anna. Var hún þar að vísa til þess að ef ekki næðist saman í kjaradeilunni gætu verkalýðsfélögin gripið til verkfallsvopnsins, til að knýja fram kjarabætur.

Með því að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara fer viss atburðarrás af stað, ef ekki gengur saman með viðsemjendum getur breiðfylkingin lýst því yfir að viðræður séu árangurslausar og síðan hefja aðgerðir sem aðdraganda að því að boða verkföll. Til verkfalla má ekki boða nema kjaradeilu hafi verið vísað til ríkissáttasemjara fyrst, samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Telur SA hafa mætt til fundar af fullri alvöru
Sólveig Anna sagði að breiðfylkingin hafi komið afar vel undirbúin til viðræðnanna, bæði hvað varðar útfærslu tillagna um endurreisn tilfærslukerfanna en einnig varðandi aðra þætti kjarasamningsgerðarinnar. „Við mættum á fyrsta fund full alvöru, með vel útbúnar tillögur sem við lögðum fram. Og ég held að Samtök atvinnulífsins hafi líka mætt full alvöru, þó við séum komin á þennan stað núna.“

Gunnar Smári nefndi þá að Samtök atvinnulífsins hefðu breytt um kúrs í viðræðunum og játaði Sólveig Anna því. „Við skynjuðum þennan góða tón á fundinum milli jóla og nýárs.“ Viðræður hefðu gengið ágætlega framan ef en síðan farið að harðna.

Gunnar Smári spurði þá Sólveigu Önnu hvort að það hefðu verið breyttar forsendur vegna stöðunnar í Grindavík sem þessu ollu, eða að það hafi einfaldlega ekki verið stuðningur við það innan SA að ganga til samninga við breiðfylkinguna á hennar forsendum.

„Ég held að ástæðan fyrir því að Samtök atvinnulífsins breyta þarna um kúrs hafi ekkert með Grindavík að gera. Ég held að þau hafi kannski bara signalerað of mikla jákvæðni í upphafi sem að var svo kannski ekki innistæða fyrir í þeirra röðum,“ sagði Sólveig Anna og nefndi að bakland SA væri væntanlega flókið og erfitt. „Það eru alls konar hagsmunir hjá alls konar íslenskum kapítalistum sem að fara ekki endilega allir saman.“

Margt bendi til að bakland SA sé einmitt ekki samstíga. Gunnar Smári nefndi í því samhengi að sum fyrirtæki hafi talað inn í hugsanlegt samkomulag á meðan að önnur hafi ekki gert það. Þessu játti Sólveig Anna. „Það er auðvitað að mínu viti signal um það að það sé ekki alveg verið að marsera þarna í takt.“

Fráleit krafa að leggja launaskrið ofan á kostnaðarmat
Segir Sólveig Anna að samtalið við samninganefnd SA hafi farið að snúast um taka þyrfti inni í kostnaðarmat vegna kjarasamninganna launaskrið og jafnframt að óheppilegt væri að gera kjarasamninga með flatri krónutöluhækkun. Hið seinna er grundvallar forsendan í kröfugerð breiðfylkingarinnar.

„Við auðvitað höfnuðum þessu, við sögðum að það væri ekki hægt að leggja ofan á kostnaðarmatið sem við værum með launaskriðið. Það væri fráleit nálgun og óþekkt. Við erum að semja um lágmarkskjör á vinnumarkaði, við erum ekki að semja um launaskrið hærra launaðra hópa, og það væri ófrávíkjanleg krafa breiðfylkingarinnar að samið yrði um flatar krónutöluhækkanir.“

Sólveig Anna segir að launakröfur breiðfylkingarinnar séu afskaplega hófstilltar en af þeim sökum þurfi þátttöku stjórnvalda til, að þau axli ábyrgð gagnvart vinnandi fólki. Breiðfylkingin vilji ekki undirrita kjarasamninga sem virki eins og olía á verðbólgubálið. Að sama skapi vilji breiðfylkingin ekki heldur lenda aftur í því að framlag ríkisvaldsins sé raunverulega því sem næst einskis virði. Vilji breiðfylkingarinnar sé að gera langtímasamninga, til að minnsta kosti þriggja ára, þar sem aðstæður skapist til að verðbólga lækki og að stjórnvöldi geti gert það sem þau eigi að gera, að endurreisa tilfærslukerfin, barna-, húsnæðis- og vaxtabótakerfin, til þess að þau virki sem þau jöfnunartæki sem þeim er ætlað að vera.

Sjálfstæðisflokkurinn jarðtengist vonandi
Gunnar Smári nefndi þá að stjórnvöld sendu nú skilaboð, meðal annar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Bjarni Benediktsson, varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, að vegna stöðunnar í Grindavík auk annars, væri alls óvíst að ríkissjóður ætti nokkuð aflögufært fyrir verkafólk. „Einn armur stjórnvalda sendir þessi skilaboð frá sér,“ svaraði Sólveig Anna þá, en benti jafnframt á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði vissulega mjög harða hugmyndafræðilega nálgun í orði, en oft væri það svo að á borði næðist að milda þá afstöðu eitthvað.

„Ég tel að bæði Vinstri græn og Framsókn sjái að það eru mikil tækifæri fólgin í því að ganga frá góðu samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Ég tel að á endanum muni Sjálfstæðisflokkurinn hætta þessu ideológíska þrasi sínu, jarðtengjast og liðsinna öllum hér að ganga frá góðum kjarasamningi. Sem að þau geta þá bæði hrósað sér af pólitískt, og auðvitað mun hafa þær afleiðingar að það verður líka auðveldara fyrir hið opinbera að ganga frá kjarasamningunum sem eftir koma,“ segir Sólveig Anna og bendir á að endurreisn tilfærslukerfanna myndi koma öllum á vinnumarkaði til góða.

Ef að stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins axli ekki sína ábyrgð muni það valda því að verkalýðshreyfingin verði nauðbeygð að gera skammtímasamning með miklu hærri krónutöluhækkunum en breiðfylkingin hefur nú boðið. Slíkur samningur myndi hafa þau áhrif að verðbólga myndi ekki lækka og ekki verði hægt að lækka vexti í landinu. „Mögulega er íslensk pólitík orðin svo firrt að hún telur að þetta sé betri og skynsamlegri leið til að feta. Það verður þá bara að koma í ljós.“