Endurreisn svokallaðra tilfærslukerfa, barnabóta-, vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfanna mun færa Eflingarfélögum verðmætar kjarabætur sem gagnast mest þeim sem lægstar tekjur hafa. Þessar aðgerðir munu jafnframt skila miklum ábata upp tekjustigann. Tillögur breiðfylkingarinnar, sem Efling skipar ásamt stærstu félögum og landssamböndum innan ASÍ, gera ráð fyrir að endurreisn þessara kerfa verði stór þáttur í þeim kjarabótum sem koma þurfa í hlut félagsmanna með nýjum kjarasamningi. Þær eru jafnframt fallnar til þess að ná niður verðbólgu og vöxtum hratt og örugglega, öllu launafólki til hagsbóta.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju myndbandi sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sent frá sér. Í myndbandinu fær Sólveig Anna til sín sem gest Stefán Ólafsson, sem er prófessor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Eflingu. Stefán er helsti sérfræðingur landsins í tilfærslukerfunum.
Skilar skattfrjálsum kjarabótum
Stefán útskýrir í myndbandinu að sú stefna sem breiðfylkingin mótaði fyrir kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir hafi verið að leggja höfuðáherslu á að ná verðbólgu og vöxtum hratt niður. „Það þýðir að við þurftum að fara fram með mjög hóflegar launahækkanir, í byrjun sérstaklega,“ segir Stefán.
Stefán segir hins vegar að auðvitað hafi ekki verið hægt að bjóða félagsmönnum Eflingar upp á að fá ekkert nema lágar launahækkanir í sinn hlut, aðrar kjarabætur þurfi að koma til í staðinn. Þaðan sé sú hugmynd komin að hækka verulega stuðning við heimili vinnandi fólks með barnabótum, vaxtabótum og húsnæðisbótum, og tryggja félögum í Eflingu þannig aukningu ráðstöfunartekna.
Stefán segir enn fremur að þessi endurreisn sé tímabær enda hafi verið grafið undan þessum tilfærslukerfum á liðnum áratugum. „Meðalfjölskyldan hefur tapað um það bil 40 þúsund krónum að núvirði í stuðningi, á hverjum mánuði, úr þessum kerfum. Þess vegna tölum við um endurreisnina. Hún felur í sér að það muni þurfa allt að því að tvöfalda útgjöld ríkisins í þessa málaflokka, sem muni þá skila láglaunafólki, og upp í millitekjuhópana, kjarabótum á bilinu 30 til 50 þúsund krónur á mánuði, sem eru skattfrjálsar. Þannig að þetta eru mjög verðmætar kjarabætur og stærri hlutinn af þeim kemur til lægri launahópana.“
Boltinn hjá ríkisstjórninni
Stefán útskýrir að þau sem eru með undir 500 þúsund krónur í mánaðarlaun myndu, nái kröfur breiðfylkingarinnar fram að ganga, fá í sinn hlut rúmlega 60 þúsund króna hærri greiðslur á mánuði, eftir skatta. Töluverður meirihluti þeirrar hækkunar kæmi úr tilfærslukerfunum, rúmar 40 þúsund krónur, og sem fyrr segir væru þær skattfrjálsar. Fyrir þá sem hafa á bilinu 500 til 600 þúsund krónur í mánaðarlaun myndi hækkunin nema rúmum 55 þúsund krónum, þar af kæmu um 40 þúsund úr tilfærslu kerfunum. Sá hluti sem kæmi í hlut launafólks úr þeim kerfum færi síðan hægt lækkandi upp tekjustigann og kæmi ekki í hlut þeirra sem hafa 1.100 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun.
Þetta gerist þó ekki, segir Stefán, nema að ríkið skili því sem farið er fram á um hækkun barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta. Boltinn er því hjá ríkisstjórninni.
Mun marka tímamót
Stefán segir að mörgu leyti sé um að ræða nýja nálgun í kjarabótum til handa vinnandi fólki. „Við gefum eftir kröfu um launahækkanir fyrir kjarabætur í öðru formi. Síðan þegar við erum búin að ná verðbólgunni hratt niður, hún er komin niður í 3,5 til 4 prósent á næsta ári, þá munu launahækkanir sem gert er ráð fyrir að komi til þá skila ágætum kaupmáttarauka vel upp tekjustigann. Hlutfallslega verður kaupmáttaraukningin mest í lægstu hópunum, vegna þess að formið á launahækkununum er þessi flata krónutöluhækkun sem Efling hefur út í gegn lagt áherslu á. Þarna er farin ný leið sem mun að mörgu leyti, ef hún er gengin alla leið, marka tímamót í þróun velferðarríkisins á Íslandi. Hún mun styrkja stöðu heimilanna gagnvart sveiflum í afkomu, sérstaklega í krísu, og almennt hækka kaupmáttarstig launafólks,“ segir Stefán.
Félagsfólk Eflingar er hvatt til þess að senda spurningar um kjarasamninga viðræðurnar á formanninn Sólveigu Önnu, á netfangið solveiganna@efling.is. Þegar hafa borist fjölmargar spurningar sem unnið er að því að svara. Þegar þeirri vinnu er lokið munu svörin verða send út á póstlista félagsmanna, auk þess sem Sólveig Anna mun svara þeim í fleiri myndböndum sem þessu.