Ályktun samninganefndar og trúnaðarráðs Eflingar

Sameiginlegur fundur
samninganefndar og trúnaðarráðs Eflingar
8. febrúar 2024
sendir frá sér eftirfarandi

ÁLYKTUN

Samninganefnd og trúnaðarráð Eflingar lýsa fullum stuðningi við framhald kjaraviðræðna á þeim grunni sem Breiðfylkingin hefur myndað sátt um og kynnt fyrir Samtökum atvinnulífsins.

Samninganefnd og trúnaðarráð leggja þunga áherslu á að langtímakjarasamningur sé varinn ströngum forsenduákvæðum, sem séu í samræmi við yfirlýst samningsmarkmið og láti ekki áhættu af forsendubresti hvíla eingöngu hjá verkafólki.

Samninganefnd og trúnaðarráð leggja ekki síður þunga áherslu á að stjórnvöld styðji við gerð kjarasamninga með því að framkvæma löngu tímabæra leiðréttingu á tilfærslukerfum hins opinbera. Slíkt er algjör grunnforsenda þess að verka- og láglaunafólk geti sætt sig við kjarasamninga með hófsömum launahækkunum.

Jafnframt árétta samninganefnd og trúnaðarráð þegar framsettar kröfur Eflingar um eftirfarandi atriði:

Tryggja þarf vernd gegn ómálefnalegum uppsögnum á almennum vinnumarkaði, og koma þarf sérstaklega í veg fyrir að starfsfólki sem gerir athugasemdir við aðbúnað á vinnustað sínum sé refsað með uppsögn.

  • Heimilt á að vera að kjósa viðeigandi fjölda trúnaðarmanna á starfsstöðvum þar sem félagsmenn eru 100 eða fleiri.
  • Trúnaðarmenn þurfa að hafa tryggðan lágmarkstíma til að sinna þeim störfum sem þeim eru falin. Lagfæra þarf ákvæði kjarasamninga til að svo megi vera.
  • Réttur til námskeiðssetu á að vera hinn sami bæði á fyrra og seinna ári skipunartíma trúnaðarmanns, og trúnaðarmaður á að fá greidd staðgengilslaun þegar hann sækir námskeið á vinnutíma.
  • Trúnaðarmenn sem sitja í samninganefnd þurfa að fá tryggingu fyrir því að atvinnurekandi gefi þeim leyfi úr vinnu án launamissis þegar þeir þurfa að sækja samninganefndarfundi og fundi með viðsemjendum.

Samninganefnd og trúnaðarráð taka enn fremur heils hugar undir sameiginlegar kröfur Breiðfylkingarinnar um eftirtalin atriði:

  • Virkja þarf keðjuábyrgð í verktöku á almenna vinnumarkaðinum, fremur en að slík ábyrgð eigi eingöngu við um opinber innkaup.
  • Útvíkka þarf heimildir til vinnustaðaeftirlits þannig að þær nái til alls almenna vinnumarkaðarins, en séu ekki takmarkaðar við vissa geira.
  • Taka þarf á skerðingu áunnina réttinda við endurráðningu hjá sama atvinnurekanda.
  • Tryggja þarf í kjarasamningi að starfsmaður haldi fullum launum þegar ófærð hamlar því að hann komist til vinnu.
  • Koma þarf í veg fyrir að kröfur verkafólks vegna vangreiddra launa eða réttindabrota fyrnist hraðar en gert er ráð fyrir í almennum fyrningarreglum.

Samninganefnd og trúnaðarráð árétta einnig fullan stuðning sinn við aðrar kröfur sem koma frá bandalagsfélögum og -samböndum innan Breiðfylkingarinnar. Efling metur samstöðu Breiðfylkingarinnar mikils.

Félagsfólk Eflingar hefur margoft upplifað virðingarleysi gagnvart tilveru þeirra, hagsmunum og samningsrétti. Sú óvirðing hefur á liðnum árum verið tjáð af viðsemjendum félagsins, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðinum, og af embætti ríkissáttasemjara. Tími slíks virðingarleysis í garð verka- og láglaunafólks er liðinn, og félagsfólk Eflingar er tilbúið að beita sér af fullri hörku til að þeim sé sýnd eðlileg lágmarksvirðing.

Samninganefnd og trúnaðarráð telja ekkert til fyrirstöðu að ljúka viðræðum á innan við viku. Félagsfólk Eflingar hefur komið verulega til móts við Samtök atvinnulífsins og á heimtingu á því að samningsvilji þeirra sé endurgoldinn. Samninganefnd og trúnaðarráð treysta því jafnframt að ríkissáttasemjari geri sitt til að liðka fyrir viðræðum.

Samþykkt einróma á sameiginlegum fundi samninganefndar og trúnaðarráðs, haldinn í Félagsheimili Eflingar 8. febrúar 2024.