Efling vill að endurskoðað verði hvernig orlofsréttur ávinnst (Myndband)

16. 02, 2024

Breiðfylkingin hefur sett fram þá kröfu að endurskoðað verið hvernig launafólk vinni sér inn orlofsrétt. Sú krafa var lögð fram í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins og við hana verður staðið þegar viðræður hefjast að nýju. Krafan er að fullur, þrjátíu daga orlofsréttur komi fyrr í hlut launafólks en nú er, ekki eftir tíu ára starf heldur eftir sjö ára starf. Í ljósi þess að hversu hófsamar launahækkanir Breiðfylkingin hefur fallist á hlýtur að vera rými til að svo megi verða.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju kynningarmyndbandi Eflingar sem sent hefur verið félögum. Í því fer Viðar Þorsteinsson, fræðslu- og félagsmálastjóri félagsins yfir hluta þeirra mála sem Efling hefur barist fyrir í viðræðum við SA. Fjallar Viðar þar um önnur mál en stóru áhersluatriðin, það er launaliðinn og forsenduákvæði kjarasamninga, sem ítarlega hefur verið fjallað um hér á síðunni áður. 

Meðal þess sem Viðar nefnir er að samningafólk Eflingar hafi sett töluvert púður í að ná fram lagfæringum á réttindum hópferðabílstjóra og tækjastjórnenda, einkum hvað varðar aðbúnað á ferðum. Tryggja þurfi eðlilega lágmarksgreiðslu þegar menn afli sér matar á ferðum og laga þurfi til í skráningu hvíldartíma og útreikningum í tengslum við hann. „Við erum hörð á þessum kröfum gagnvart Samtökum atvinnulífsins,“ segir Viðar. 

Þá hafa málefni ræstingafólks einnig verið sett á oddinn en leiðrétta þarf kjör þess hóps sem hafa á undanförnum árum hnignað. 

Tryggja verður uppsagnarvernd

Viðar útskýrir að talsvert púður hafi verið sett í að laga galla á ákvæðum kjarasamninga hvað varðar uppsagnarvernd á almenna vinnumarkaðnum. Staðan í dag er þannig að atvinnurekendur geta sagt upp fólki án þess að fyrir því séu nokkrar málefnalegar ástæður. Þetta sé óboðlegt ástand á heilbrigðum vinnumarkaði. Á opinvera vinnumarkaðinum er krafa um að sýna þurfi fram á lögmætar ástæður uppsagnar. 

Viðar segir að lagðar hafi verið fram ákveðnar útfærslur um með hvaða hætti væri hægt að koma þessu við. Þá hafi til vara verið lögð fram tillaga um að lög um vernd uppljóstrara verði útfærð með þeim hætti að komi starfsmaður til atvinnurekanda í góðri trú og komi með ábendingu um eitthvað sem ámælisvert er á vinnustað öðlist hann vernd gegn því að vera sagt upp af ómálefnalegum ástæðum. 

Réttur trúnaðarmanna verði styrktur

„Við höfum líka sett það á oddinn að styrkja rétt trúnaðarmanna,“ segir Viðar en trúnaðarmannakerfið er algjört hryggjarstykki í starfi Eflingar. Meðal þeirra krafna sem settar hafa verið fram eru að heimilt verði að fjölga trúnaðarmönnum á stærri vinnustöðum og að þeir fái lágmarkstíma til að sinna störfum sínum á vinnutíma. „Þú hleypir ekki úr vinnu ef þú ert að vinna á færibandi eða ef þú ert í akstri úti á landi í bifreið eða ef þú ert að standa vakt einhvers staðar sem öryggisvörður, það segir sig sjálft.“

Hið sama má segja um rétt trúnaðarmanna til að sitja námskeið á vinnutíma og tryggingar fyrir því að það komi ekki niður á tekjum þeirra. Enn fremur hefur Efling lagt áherslu á að trúnaðarmenn eigi rétt á að sinna störfum í samninganefndum, rétt eins og gerist á opinbera vinnumarkaðnum. 

Eflingar félagar eru hvattir til að fylgjast áfram með síðu félagsins þar sem reynt verður eftir fremsta megni að upplýsa um stöðu kjaraviðræðna og hvað það er sem samninganefnd Eflingar setur á oddinn.