Full samstaða í samninganefnd og stuðningur við framhald viðræðna

Samtök atvinnulífsins (SA) þurfa að axla ábyrgð með verkalýðshreyfingunni og tryggja að nýr kjarasamningur veiti verkafólki uppsagnarvernd. Eins og staðan er í dag geta óprúttnir atvinnurekendur sagt fólki upp störfum af tylliástæðum einum saman. Þá þarf sömuleiðis að tryggja í kjarasamningum réttindi trúnaðarmanna og styrkja þau.

„Ég býst við að SA vinni með okkur hratt og vel á næstu dögum að leiða þessi mál til lykta með viðeigandi samnings breytingum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar að loknum fjölsóttum fundi samninganefndar Eflingar í gærkvöldi, 5. febrúar. Á fundinum, sem fram fór í Félagsheimili Eflingar, var farið ítarlega yfir stöðuna í kjaraviðræðum við SA. Á fundinum lýsti nefndin fullu trausti til Sólveigar Önnu til að halda áfram viðræðum á núverandi braut.

Þetta er í sjöunda skiptið sem nefndin hittist á árinu, eftir að viðræður hófust af alvöru í lok desember milli SA og Breiðfylkingar stærstu landssambanda og félaga innan ASÍ. Efling hefur frá byrjun verið aðili að Breiðfylkingunni.

Hærra launaðir hafna krónutöluhækkunum

Í viðræðunum hefur Efling fallist á hóflegar launahækkanir, að því gefnu að lægstu laun hækki sérstaklega og að aðkoma stjórnvalda í gegnum leiðréttingu tilfærslukerfanna verði veruleg. Þessi markmið standa, þótt nú sé ljóst sé að ekki verður samið um flatar krónutöluhækkanir, líkt og í Lífskjarasamningunum 2019-2022. Þetta var rætt á fundi samninganefndar í gær.

„Það er miður að lítill hópur iðnaðarmanna utan Breiðfylkingarinnar og félög hærra launaðra ríkisstarfsmanna hafi ásamt SA reist múr gegn flötum krónutöluhækkunum. Ég tel að þar hafi glatast mikilvægt vopn í baráttunni fyrir jöfnuði í samfélagi okkar. Efling getur hins vegar ekki stjórnað hugmyndafræðinni sem ræður ríkjum hjá hærra launuðum hópum,“ sagði Sólveig Anna.

Uppsagnarvernd og réttindi trúnaðarmanna

Efling leggur mikla áherslu á að réttindi félagsfólks verði styrkt í kjarasamningi við SA. Sem stendur nýtur óbreytt verkafólk á almennum vinnumarkaði engrar uppsagnaverndar, og er mögulegt að segja verkafólki upp störfum af tylliástæðum einum. Þetta er í andstöðu við tilmæli Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) og mismunun sé borið saman við reglur opinbera vinnumarkaðarins.

Efling gerir kröfu um að í samningum við SA verði innleidd ákvæði sem tryggja málefnalegar ástæður uppsagnar, og sem koma í veg fyrir að verkafólki sem gerir athugasemdir í góðri trú varðandi kjör og aðbúnað á vinnustað sé sagt upp störfum af þeim sökum.

Þá hefur Efling lagt ríka áherslu á að styrkja réttindi trúnaðarmanna, sem eru hryggjarstykkið í öllu starfi félagsins og forsenda þess að verkafólk geti staðið vörð um réttindi sín á vinnustöðunum.

„Því miður þá eru réttindi margra félaga okkar fótum troðin af atvinnurekendum og hinn margumtalaði skipulagði vinnumarkaður stendur ekki undir nafni. Samtök atvinnulífsins þurfa að axla ábyrgð með á okkur á því að kjarasamningurinn veiti verkafólki þá vernd sem hann á að gera og virki sem aðhald gegn óprúttnum atvinnurekendum. Ég býst við að SA vinni með okkur hratt og vel á næstu dögum að leiða þessi mál til lykta með viðeigandi samnings breytingum,“ sagði Sólveig Anna.