Hvað eru forsenduákvæði?

10. 02, 2024

Breiðfylking stærstu félaga og landssamtaka innan ASÍ lýsti í gær viðræður þess við Samtök atvinnulífsins (SA) um nýjan kjarasamning árangurslausar. Það sem ekki næst samkomulag um eru svokölluð forsenduákvæði í samningnum um þróun verðbólgu og vaxta. SA hafa hafnað því að í samningnum verði ásættanleg forsenduákvæði til varnar launafólki. 

En hvað eru eiginlega þessi forsenduákvæði sem SA vilja ekki? 

Forsenduákvæði eru hugtak sem notast er við í kjarasamningagerð. Það þýðir að ákveðnar forsendur eru settar þegar kjarasamningur er gerður og haldi þær ekki þarf að bregðast við með breytingum á samningnum, eða jafnvel með því að samningurinn falli úr gildi. 

Þessar forsendur geta verið af ýmsu tagi, til að mynda að verðbólga eigi að lækka á samningstímanum. Aðrar forsendur gætu til dæmis verið að kaupmáttur launa aukist eða haldist í það minnsta óbreyttur, að stjórnvöld fari í aðgerðir sem þau hafi heitið í tengslum við kjarasamninga eða jafnvel að gengi krónu styrkist.

Ef forsendur bresta, til dæmis ef verðbólga lækkar ekki eða lækkar ekki nógu mikið á ákveðnu tímabili, eru forsendur kjarasamningsins brostnar. Ef það gerist virkjast forsenduákvæðin og samningurinn breytist. Mögulega kemur þá til framkvæmda ákvæði um að laun hækki meira en annars hefði gerst. Í versta falli fellur samningurinn úr gildi eða að samningsaðilum er heimilt að rifta honum.

Í þessu ljósi er mjög mikilvægt að forsenduákvæði í kjarasamningum séu skýr og ekki þörf á að deila um hvort markmið hafi náðst eða hvort forsendur haldi. Því vill Breiðfylkingin setja í kjarasamninginn nú forsenduákvæði þar sem markmið eru tölusett og tímasett. Dæmi um kröfur Breiðfylkingarinnar eru til að mynda að verðbólga hafi lækkað um ákveðna prósentutölu á ákveðnum tímapunkti og að stýrivextir hafi lækkað ákveðið mikið á tilgreindum tímapunkti. 

Skýr forsenduákvæði mikilvæg fyrir báða samningsaðila

Forsenduákvæði hafa verið innbyggð í alla kjarasamninga síðustu áratuga. Þau hafa verið misjafnlega skýr og stundum hefur óskýrt orðalag varðandi forsenduákvæði skapað deilur milli samningsaðila um hvort staðið hafi verið við ákvæði kjarasamninga eða ekki. 

Í kjarasamningum VR við SA árið 2000 var sett forsenduákvæði þess efnis að verðbólga skyldi fara minnkandi. Samningsaðilar áttu að meta það árlega hvort þær forsendur hefðu staðist, og ef ekki væri launaliður samningsins uppsegjanlegur. Engin tölusett markmið voru sett inn í samninginn. 

Í kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA árið 2004 voru sett inn forsenduákvæði, meðal annars að verðlag myndi þróast í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Ef samningsaðilar teldu að forsendur væru brostnar væri hægt að skjóta málinu til sérstakrar forsendunefndar sem þyrfti þá að ná samkomulagi um hvort svo væri. Augljóst er að slík aðferðafræði byggir ekki á skýrleika. 

Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ við SA árin 2008 og 2011 voru forsendur alla jafna skýrari, tölusettar og tímasettar í meira mæli. Í lífskjarasamningnum sem gerðir voru 2019 var skýrleikinn ekki jafn mikill sem meðal annars olli deilum um hvort ákvæði kjarasamnings hefðu brostið eður ei. Þá voru það SA sem töldu að forsendur væru brostnar, á árinu 2020.

Það er því ljóst að það er til mikils unnið, fyrir báða samningsaðila, að í kjarasamningum séu skýr forsenduákvæði, með skýrum tölu- og tímasettum markmiðum, og skýrum viðbrögðum við því ef forsendur bresta.