Ömurlegt að verða vitni að framgöngu SA (Myndband)

Fráleitt er að varpa allri ábyrgð á launafólk í baráttunni við verðbólguna. Því verður ekki fallist á nokkra þá kjarasamninga sem ekki innihalda skýr forsenduákvæði til varnar hagsmunum vinnandi fólks. Satt best að segja er „ömurlegt að verða vitni að því að SA sigli viðræðum í strand vegna óbilgirni varðandi sjálfsögð og eðlileg forsenduákvæði.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í nýju myndbandi um stöðu kjaraviðræðna sem sent hefur verið félagsfólki Eflingar. Myndbandið er að finna hér neðst í fréttinni.

Eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni er ástæða þess að Breiðfylkingin sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) sú að hin síðarnefndu hafa hafnað því að í kjarasamningum verði ásættanleg forsenduákvæði. Þau eru nauðsynleg til að vinnandi fólk sé varið, fari svo að þau markmið sem Breiðfylkingin hefur sett sér náist ekki. Þá er verið að tala um þau markmið að hér takist að lækka verðbólgu og vexti, auk þess sem stjórnvöld endurreisi opinberu tilfærslukerfin. 

Samkomulag hafði náðst um launalið samninganna en þar bauð Breiðfylkingin hófsamar launahækkanir. Náist þau markmið að verðbólga lækki hratt, sem og stýrivextir Seðlabankans, mun kaupmáttur vinnandi fólks aukast hratt einnig. 

„En við verðum augljóslega að vera með varnir inn í samningunum komi sú staða upp að þetta gerist ekki. Ekki er hægt að loka félagsfólk Eflingar og annað launafólk inn í löngum kjarasamningum, þar sem að fallist er á hóflegar launakröfur, ef að sá efnahagslegi árangur sem að stefnt er að næst ekki. Ef að það er niðurstaðan er allri ábyrgðinni varpað á launafólk sem ber þá eitt ábyrgðina af því að vinna gegn verðbólgunni. Slík nálgun er auðvitað algjörlega fráleitt,“ segir Sólveig Anna.

Því er ekki hægt að undirrita fjögurra ára samning með forsenduákvæðum sem gera ekkert til að verja vinnandi fólk. „Fyrir okkur sem að leiðum samningaviðræður fyrir hönd meirihluta vinnandi fólks á Íslandi er satt best að segja ömurlegt að verða vitni að því að SA sigli viðræðum í strand vegna óbilgirni varðandi sjálfsögð og eðlileg forsenduákvæði.“

Sólveig Anna tekur þá einnig fram að Breiðfylkingin hafi komið til móts við SA við samningaborðið þegar kemur að forsenduákvæðum, meðal annars hvað varðar tímasetningar. 

Trygging sem verður að vera til staðar

Í myndbandinu fer Sólveig Anna yfir kröfur Breiðfylkingarinnar varðandi þau forsenduákvæði sem þurfa að vera í kjarasamningum. Á heimasíðu Eflingar hefur áður verið fjallað um hvað í þeim felst og má lesa þá umfjöllun hér. Þá hefur einnig verið fjallað um það á heimasíðunni hvað forsenduákvæði eru og hver vegna þau eru nauðsynleg í kjarasamningum. Lesa má þá umfjöllun hér

SA hafa lagt fram sínar hugmyndir um forsenduákvæði en í þeim eru ekki tölusett markmið og þá þarf samþykki beggja samningsaðila til að hægt sé að segja kjarasamningum upp. Þær hugmyndir, segir Sólveig Anna, eru algjörlega óásættanlegar. „Að auki halda samtök atvinnulífsins því nú fram að ekki sé hægt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum varðandi vexti því að slíkt vegi að sjálfstæði seðlabankans. Slíkur málflutnignur er algjörlega út í hött og SA til skammar. Seðlabankinn getur auðvitað farið sínu fram en ekki er hægt að láta vinnuaflið bera alla ábyrgð á efnahagslegu umhverfi landsins.“

Því er staðreyndin sú að sjónarmið Breiðfylkingarinnar eru augljós og auðskiljanleg, segir Sólveig Anna. Forsenduákvæði eru einfaldlega trygging fyrir launafólk, sem verður að vera til staðar í kjarasamningum. „Vonandi átta Samtök atvinnulífsins sig á því að þvermóðska þeirra varðandi forsenduákvæði er fáránleg og koma til móts við kröfur okkar svo að við getum gengið frá kjarasamningum án átaka.“