Sólveig Anna: Hægt að finna lausn en Eflingarfólk tilbúið í verkföll ella 

21. 02, 2024
Solveig Anna

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar bindur vonir við að viðræður um nýjan kjarasamning þokist í rétta átt á fundi deiluaðila í dag. Breiðfylkingin hafi gefið eftir varðandi sumar kröfur sínar við samningaborðið en standi föst á öðrum, svo sem því að sterk forsenduákvæði verði að vera í samningnum. Hún trúi því í fullri einlægni að hægt sé að finna lausn í þeim efnum. Hins vegar sé félagsfólk Eflingar meira en tilbúið til að fara í hart og leggja niður störf ef á þurfi að halda til að knýja fram réttlátar og eðlilegar kjarabætur. Það sýni kannanir sem gerðar hafi verið meðal félagsfólks. 

Þetta sagði Sólveig Anna í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 nú í morgun. Samninganefndir Breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins voru boðaðar á samingafund hjá ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Fundarboðið var að frumkvæði SA og telur Sólveig Anna næsta víst að á fundinum verði umræðum um forsenduákvæði kjarasamninga framhaldið, en það voru þau sem á steytti og ollu því að Breiðfylkingin sleit viðræðum. Sýn SA á forsenduákvæðin var afar fjarri sýn Breiðfylkingarinnar, svo vægt sé til orða tekið sagði Sólveig Anna. 

„Algjör óþarfi“ að keyra viðræðurnar út í skurð

Spurð hvort hún hefði ástæðu til að ætla að árangur næðist í kjaradeilunni í dag svaraði Sólveig Anna því til að ríkissáttasemjari hefði lýst því yfir að ekki yrði boðað til fundar nema að hann teldi að mögulegt yrði að þoka viðræðum í rétta átt. Það gæfi því tilefni til bjartsýni að fundurinn hefði verið boðaður í dag. „Ég bind vonir við að við komumst aftur af stað, komumst upp úr þessum skurði sem að viðræðurnar voru keyrðar út í. Það var algjör óþarfi að mínu viti,“ sagði Sólveig Anna.

Sólveig sagði að augljóst væri, þegar horft væri til sögunnar, að sterk forsenduákvæði séu nauðsynleg í kjarasamningum til að verja launafólk. Tilboð Breiðfylkingarinnar inn í kjaraviðræðunum nú hafi verið að gerð yrði alvöru tilraun til að ná niður háu vaxtastigi og hárri verðbólgu í landinu. Til þess hafi Breiðfylkingin boðið, og fallist á, hófsamar launahækkanir í langtímasamningum. Takist hins vegar ekki að ná niður vöxtum og verðbólgu og koma efnahagsumhverfinu í bærilegt horf geti launafólk ekki verið lokað inni í langtímasamningum sem inniberi aðeins lágar launahækkanir. Það sé augljóst. Þar af leiðandi þurfi sterk og skýr forsenduákvæði í kjarasamningnum. 

Það að forsenduákvæði séu sett sem tengist vaxtastigi Seðlabankans hafi engin áhrif á sjálfstæði bankans sagði Sólveig Anna, þrátt fyrir að SA hafi gert tilraun til að halda því fram. Seðlabankastjóri hafi sjálfur stigið fram og lýst því að slík forsenduákvæði hafi engin áhrif. Það rými fullkomlega við lögfræðiálit sem Efling lét vinna hratt og vel fyrir sig einnig. Þess vegna hafi það komið á óvart að steytt hafi á á þessu í samningaviðræðunum.  

Spurð hvaða væntingar hún hafi til fundarins í dag sagði Sólveig Anna að hún vonaðist til þess að eitthvað færi að ganga saman. Spurð ennfremur um hvort að Breiðfylkingin gæti sætt sig við að gefa eftir í kröfum sínum til að samningar næðust lýsti hún því að það hefði þegar verið gert. Hins vegar héldi Breiðfylkingin fast við sum atriði kröfugerðar sinnar, líkt og forsenduákvæðin. Þannir virki samningaviðræður. „Ég trúi því af fullri einlægni að við getum fundið lausn á þessu máli, varðandi forsenduákvæðin,“ segir Sólveig og bætir við að það ætti að vera hægt að gera hratt.

Jákvæð skilboð frá stjórnvöldum

Spurð hvort fulltrúar verkalýðsfélaganna hafi verið fullvissaðir um það af hálfu stjórnvalda að þau myndu koma að kjarasamningunum með einhverjum hætti sagði Sólveig Anna að svo væri. 

„Stjórnvöld hafa gefið mjög skýrt til kynna við okkur að þau skilji, að minnsta kosti, part af okkar kröfum og séu tilbúin til að koma til móts við okkur,“ sagði hún og bætti við að það væri enda algjört lykilatriði. Krafa Breiðfylkingarinnar væri að tilfærslukerfi hins opinbera yrðu endurreist, öðru vísi væri ekki hægt að ná samingum eins og lagt hefði verið upp með. Hins vegar ætti eftir að sjá hvað ríkisstjórnin kæmi með að borðinu enda væri ekki búið að setja penna á blað af hálfu samningsaðila. 

Tilbúin að leggja niður störf ef með þarf

Gangi samtalið milli samningsaðila ekki vel í þessari lotu er ekkert annað um að ræða en að færa aðgerðir verkalýðsfélaganna á næsta stig sagði Sólveig Anna þá einnig, og vísaði þar til beitingar verkfallsvopnsins. Efling hafi látið fara fram könnun um vilja ákveðinna hópa félagsmanna til að leggja niður störf til að knýja á um kjarabætur. Meðal annars hafi verið kannaður vilji ræstingafólks, sem rannsóknir sýna að búi við einhver verstu lífsskilyrði sem fyrirfinnast. Langstærstur hópur þeirra eru konur og flestar innflytjendur. Niðurstaða þeirrar könnunnar var að 80 prósent þeirra væru tilbúnar að leggja niður störf í þeim tilgangi að ná betri kjarasamningi.

Spurð hvort að ef til verkfalls komi væri það Breiðfylkingin sameiginlega sem að að því stæði, svaraði Sólveig að hún reiknaði fastlega með því að aðgerðir yrðu samræmdar. „En svo það sé sagt hér þá stendur vilji okkar til að gera kjarasamning. Við erum ennþá á þeim stað að telja að það geti gerst. En við í Eflingu erum alla vega tilbúin til að stíga þá næsta skref hratt og örugglega ef að til þess kemur. Enda, eins og flestir vita, hefur Efling öðlast sérstaklega mikla reynslu á síðustu árum við að undirbúa verkfallsaðgerðir og halda þeim svo úti. Það hefur aldrei gerst eftir að ég tók við sem formaður 2018 að félagsfólk Eflingar sé ekki tilbúið til að leggja niður störf í þeim tilgangi að bæta sín lífsskilyrði.“