Aðgerðir ríkisstjórnarinnar tengdar kjarasamningum

Ríkisstjórnin hefur birt kynningu á þeim aðgerðum sem hún mun, ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ráðast í í tengslum við kjarasamninga. Efling, og Breiðfylkingin öll, gerði frá upphafi samningaviðræðna ljóst að frumforsenda þess að hægt yrði að fallast á kjarasamninga til lengri tíma, með hóflegum launahækkunum, fælist í endurreisn opinberu tilfærslukerfanna og aðgerðum opinberra aðila til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Með því, og hófsömum stöðugleika og velferðar kjarasamningi mætti takast að ná niður verðbólgu, og þar með vöxtum, hér á landi, öllum til góða. 

Kjarasamningar Breiðfylkingarinnar, Eflingar, Starfsgreinasambandsins og Samiðnar, við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir í gær, eftir að saman náðist með aðilum og ríkisstjórnin og sveitarfélög höfðu gert ljóst að þau myndi koma að aðgerðum með fullnægjandi hætti. 

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að aðgerðirnar eigi að styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. 

Heildarumfang aðgerðanna nemur allt að 80 milljörðum króna á fjögurra ára samningstíma kjarasamninganna. Aðgerðirnar muni, segir í tilkynningu stjórnarráðsins, auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega, eða um allt að 500 þúsund krónum á ári. 

Aðgerðir í húsnæðismálum

Aðgerðirnar felist í því ráðist verði í aðgerðir til að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og nema þær um 50 milljörðum á næstu fjórum árum. Lögð verði áhersla á öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, með því að styðja við uppbyggingu 1.000 íbúða á ári út samningstímann með 7 til 9 milljarða króna stofnframlögum ríksisjóðs til almennra íbúða og með því að tryggja hlutdeildarlán. Með þessu verði húsnæðisöryggi treyst og húsnæðiskostnaður verði viðráðanlegur. Sveitarfélögin muni leggja til lóðir. 

Greiddur verður sérstakur vaxtastuðningur til heimila með íbúðalán á yfirstandandi ári, allt að 7 milljarðar króna, vegna þess aukna vaxtakostnaðar sem uppi er. Í ljósi þess að forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka er ekki gert ráð fyrir slíkum sérstökum stuðningi önnur ár samningstímabilsins. Hámarksstuðningur mun nema 150 þúsund krónum fyrir einstakling, 200 þúsund krónum fyrir einstætt foreldri og 250 þúsund krónum fyrir sambúðarfólk, að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn greiðist beint inn á höfuðstól láns, en heimilt verður að óska þess að nýta hann til lækkunar afborgana lána í tiltekinn tíma. 

Húsnæðisbætur verða hækkaðar frá 1. júní til að draga úr íþyngjandi kostnaði leigjenda. Munu grunnfjárhæðir hækka um 25 prósent. Þá á að auka húsnæðisöryggi leigjenda og setja skýrari ramma er varða leigufjárhæðir. 

Aðgerðir til stuðnings barnafjölskyldum

Þá hyggst ríkisstjórnin bæta stöðu barnafjölskyldna á samningstímanum, og eru þær aðgerðir sem að því snúa metnar á um 50 milljarða króna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða á samningstímanum, þær verður hækkaðar og dregið verður út tekjuskerðingum. 

Skólamáltíðir grunnskólabarna verða gjaldfrjálsar frá og með næsta hausti, en að jafnaði greiða foreldrar um 12 þúsund krónur á mánuði fyrir skólamáltíðir eins grunnskólabarns.

Fæðingarorlofsgreiðslur verða hækkaðar í þremur áföngum næstu tvö ár og munu hámarksgreiðslur fara úr 600 þúsund krónum í 900 þúsund krónur. Þá er því lofað að unnið verði markvisst að því að tryggja öllum börnum leikskólavist að loknu fæðingarorlofi, fyrir lok samningstímans. 

Haldið aftur af gjaldskrárhækkunum

Þá munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum sínum. Gjaldskrár ríkisins munu ekki hækka umfram 2,5 prósent á næsta ári. Sveitarfélögin lýsa yfir vilja sínum til að hækka ekki gjaldskrár fyrir yfirstandandi ár umfram 3,5 prósent og endurskoða þær hafi þær hækkað meira. 

Auk þessa á að ráðast í aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun, bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, hækka hámarksábyrgð úr Ábyrgðarsjóði launa, auka tækifæri til starfsþjálfunar og gera breytingar á Menntasjóði námsmanna sem meðal annars miði að því að létta vaxtabyrði.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga í mars 2024

Vaxandi velsæld – kynningarglærur

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður og Kolbrún Valvesdóttir stjórnarkona kampakátar eftir undirritun kjarasamnings.