ASÍ fagnar jákvæðum skrefum í húsnæðismálum samhliða kjarasamningum

18. 03, 2024

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur á síðu sinni tekið saman helstu atriði sem snúa að þeim aðgerðum sem stjórnvöld kynntu í tengslum við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Fagnar sambandið aðgerðaáætluninni og sérstaklega því að jákvæð skref verði stigin í húsnæðismálum. 

Aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er ætlað að styðja við þau markmið samningsaðila, annars vegar Eflingar, Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samiðnar, og hins vegar Samtaka atvinnulífsins (SA), að auka kaupmátt, lækka verðbólgu og lækka vexti. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eiga að styðja við barnafjölskyldur og bregðast við erfiðum aðstæðum á húsnæðismarkaði. 

Hvað varðar húsnæðishluta aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar verða lagðir til 7-9 milljarðar til áframhaldandi uppbyggingar almenna íbúðakerfisins, sem munu styðja við uppbyggingu um 1.000 íbúða á ári. Innan almenna íbúðakerfisins er meðal annars Bjarg íbúðafélag, í eigu ASÍ og BSRB. 

Þá munu húsnæðisbætur einnig hækka samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar og mun grunnfjárhæð hækka um 25% 

Í frétt ASÍ eru tekin dæmi um ávinning af samningunum og fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda. Þar er tilgreint að beinn ávinningur af aðgerðum stjórnvalda geti orðið misjafn eftir hópum, auk þess sem lækkun verðbólgu og vaxta muni skapa gríðarlegan ábata fyrir samfélagið í heild sinni. Beini stuðningurinn beinist í meira mæli að barnafjölskyldum, leigjendum og þeim sem glími við háa vaxtabyrði. 

Tekið er dæmi af einstæðu foreldri með tvö börn og 750 þúsund krónur á mánuði í tekjur og það reiknað út að ávinningur þess foreldris verði tæplega 56 þúsund krónur á mánuði, með launahækkun, hækkun húsnæðisbóta, barnabóta og því að skólamáltíðir verði gerðar gjaldfrjálsar. Fyrir hjón með þrjú börn og sameiginlegar tekjur upp á 1,4 milljónir króna á mánuði verði ávinningurinn rétt rúmar 100 þúsund krónur á mánuði. 

Þá verða á þessu ári greiddir alls sjö milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila vegna hárrar vaxtabyrði, miðað við vaxtagjöld síðasta árs. Hámark sérstaks vaxtastuðnings mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 fyrir einstæða foreldra og 250.000 fyrir sambúðarfólk að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. 

Frekari útlistun á þeim ábata sem felst í kjarasamningum og fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar má sjá hér, á vef ASÍ.