Sá góði árangur sem Efling-stéttarfélag hefur náð í kjarasamningum síðustu misseri byggir á þátttöku félagsfólks. Félagið hefur notið þess að stórir hópar öflugs og kjarkmikils fólks fólks hefur gefið kost á sér til starfa í samninganefndum, sem og í öðru starfi félagsins. Fyrir það verður seint fullþakkað.
Nú er á ný komið að því að hefja þurfi samningaviðræður á opinbera markaðinum en þeir renna úr í lok þessa mánaðar. Því boðar Efling til kynningarfundar næstkomandi mánudag fyrir samninganefndir opinbera vinnumarkaðarins. Á sama tíma er félagsfólki sem starfar á viðkomandi samningssviðum boðið að tilnefna sig til setu í samninganefndunum. Það geta félagar gert með því að fylla út tilnefningareyðublað sem er að finna hér.
Um er að ræða samninganefndir vegna kjarasamninga þeirra Eflingarfélaga sem vinna hjá Reykjavíkurborg og sem vinna hjá Kópavogsbæ, Seltjarnaranesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Ölfusi, en Samband íslenskra sveitarfélaga er viðsemjandi fyrir hönd þessara sveitarfélaga. Þá er einnig um að ræða samninganefndir vegna viðræðna við ríkið, þar sem meðal annars er um að ræða starfsfólk á Landsspítala, auk annars. Skipa þarf einnig í samninganefnd vegna samningaviðræðna við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, en undir þeirra hatti eru störf á hjúkrunarheimilum og viðlíka. Að síðustu er um að ræða samninganefnd vegna viðræðna við SSSK, Samtök sjálfstæðra skóla.
Árangur við að bæta eigin kjör verður best tryggður með því að taka þátt í starfi Eflingar-stéttarfélags, og ekki síst með starfi í samninganefndum. Kjarasamningaviðræður er lang mikilvægasta leiðin til að ná fram bættum kjörum fyrir launafólk. Efling leggur áherslu á þátttöku fjöldans, í því er bæði fólgið lýðræði og sömuleiðis gríðarlegur slagkraftur. Því er skorað á alla sem taka vilja þátt að skrá sig.
Fundurinn fer fram í Félagsheimili Eflingar, 4. hæð í Guðrúnartúni 1, mánudaginn 25. mars og hefst klukkan 18:00. Húsið opnar klukkan 17:30 og boðið verður upp á hressingu og drykki. Textatúlkun á skjá milli ensku og íslensku.