Fyrsta skóflustungan tekin að orlofshúsum í Stykkishólmi

Nú er undirbúningi lokið á byggingu sex nýrra orlofshúsa Eflingar og framkvæmdir hafnar.

Bygging parhúss í Stykkishólmi fór formlega af stað á hlaupársdegi, 29. febrúar með því að Sveinn Ingvason, sviðsstjóri orlofssviðs tók fyrstu skóflustungu að byggingunni. Húsið sem stendur á tveimur hæðum mun verða afar svipmikið. Það mun standa á Aðalgötu 16, á besta stað. Húsið er byggt í þeim gamla stíl sem einkennir bæjarmyndina í Stykkishólmi mjög og mikill metnaður lagður í að það falli vel inn í þá mynd.

Áætlað er að framkvæmdir muni taka allt að einu ári og húsið verði komið í fulla notkun fyrir sumarið 2025.

Sveinn Ingvason, sviðsstjóri orlofssviðs tók fyrstu skóflustungu að byggingu nýrra orlofsíbúða í Stykkishólmi á hlaupársdegi, 29. febrúar 2024.

Teikningar af útliti nýja hússins í Stykkishólmi.

Öflug fjölgun orlofshúsa hjá Eflingu

Þá eru hafnar framkvæmdir við byggingu fjögurra sumarhúsa í Svignaskarði í Borgarfirði en fyrir á Orlofssjóður þar sautján hús. Félagið hefur á undanförnum árum bætt við nýjum húsum á svæðinu og með byggingu þessara húsa er nýtt hverfi í Svignaskarði fullbyggt samkvæmt gildandi skipulagi.

Húsin verða samkvæmt áætlunum öll komin í rekstur á þessu ári og mikil og góð viðbót enda ásókn í orlofshúsin afar mikil og eftirspurn eykst stöðugt.

Því er afar ánægulegt og mikilvægt að þessar framkvæmdir skuli komnar  af stað og mikil eftirvænting eftir að fá nýjar eignir inn í eignasafnið til útleigu til félagsfólks.

Eitt af nýju húsunum í Svignaskarði

Framkvæmdir við grunn að nýju orlofshúsi í Svignaskarði