Nýr kjarasamningur á almennum vinnumarkaði – Leynileg rafræn atkvæðagreiðsla 

Þann 13. mars 2024 kl. 12:00 á hádegi hefst leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins fyrir störf á almennum vinnumarkaði sem undirritaður var 7. mars 2024. Atkvæðagreiðsla stendur yfir til kl. 12:00 á hádegi þann 20. mars 2024. Um er að ræða samning sem tekur til breytinga á bæði aðalkjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og kjarasamningi Eflingar og Samtaka atvinnulífsins vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi.  

Tengill til að fá aðgang að rafrænni atkvæðagreiðslu er hér fyrir neðan (virkjast 13. mars n.k. kl. 12:00 á hádegi) 

Atkvæðisrétt eiga þeir félagsmenn sem vinna eftir framangreindum kjarasamningum á félagssvæði Eflingar. 

Félagsmenn sem eru ekki á kjörskrá en telja sig hafa atkvæðisrétt skulu senda erindi til kjörstjórnar og óska þess að vera bætt á kjörskrá í síðasta lagi kl. 15:00 þann 19. mars n.k. Erindi skal fylgja launaseðill eða ráðningarsamningur. Farið er með erindið og fylgigögn í trúnaði og skal það sent á netfangið felagsmal@efling.is. Félagsmenn sem ekki geta nýtt sér rafræna atkvæðagreiðslu geta kosið utan kjörfundar með pappírsatkvæði á skrifstofu Eflingar, á opnunartíma hennar, og skulu hafa gild skilríki meðferðis. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á opnunartíma skrifstofu.