Þjóðarátak gegn verðbólgu

10. 03, 2024
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ásamt Stefáni greinarhöfundi eftir að kjarasamningar voru undirritaðir í liðinni viku.

Eftir Stefán Ólafsson

Verkalýðshreyfingin hafði frumkvæði að því að fara nýja leið í kjarasamningum að þessu sinni. Uppleggið byrjaði sem áhersla á að sækja kjarabætur með fleiri leiðum en beinum launahækkunum. 

Hjá Eflingu var þróuð sú hugmynd að sækja af krafti eftir endurreisn tilfærslukerfa heimilanna (barnabóta og húsnæðisstuðnings), sem alla jafna skilar mestri kjarabót til lægri og milli tekjuhópa. 

Framlag ríkisins yrði þannig í lykilhlutverki. Það opnaði fyrir þann möguleika að fara fram með hóflegar launahækkanir og skapa þannig rými í fyrirtækjum og hjá hinu opinbera fyrir öra lækkun verðlags. Ef lækkun verðbólgu verður nægilega mikil skapast svo forsendur fyrir lækkun vaxta. 

Breiðfylking ASÍ félaga útfærði slíka leið og lagði fyrir samtök atvinnurekenda (SA) og síðar fyrir ríkisstjórnina. Samningar í þeim anda hafa nú verið undirritaðir. Þá tekur við næsti kafli baráttunnar. Verkalýðshreyfingin mun beita sér fyrir kröftugra verðlagsaðhaldi en áður og rukka inn þær kjarabætur sem heimilin þurfa nú að fá með lækkun framfærslukostnaðar. 

Verðlagsaðhald í forgangi

Með þeim hóflegu launahækkunum sem samið hefur verið um er fyrirtækjum ekkert að vanbúnaði að draga nú kröftuglega úr verðbólgu og beinlínis lækka verðlag á mörgum sviðum – strax á þessu ári og svo enn frekar á næstu árum. Innflutt verðbólga hefur einnig verið mjög lækkandi og það hjálpar til. Þá hefur hagnaður fyrirtækja á Íslandi verið í methæðum á síðustu þremur árum. Allt þetta skapar óvenju mikið svigrúm til að lækka verðlag til neytenda.

Opinberir aðilar njóta einnig mun minni launahækkana en áður var gert ráð fyrir og skapar það þeim einnig svigrúm til að lækka gjaldskrár sem hækkuðu umfram 3,5% um síðustu áramót – og svo að halda hækkunum í hófi í framhaldinu.

Leiðin að efnahagslegum stöðugleika og lægra stigi verðbólgu er þannig bein og  breið. Launafólk ætlast til þess að fyrirtækin og þjónustuveitendur leggi sitt af mörkum til þessarar sameiginlegu vegferðar sem verkalýðshreyfingin hefur haft frumkvæði að. Mikið er í húfi að tilraunin takist vel. Hagstjórn stjórnvalda og seðlabankans þarf að miða í sömu átt. Hemja þarf til dæmis eftirspurnarþrýsting á verðlag sem fylgir of hröðum vexti ferðaþjónustunnar.

Vextir þurfa að lækka samhliða

Verðbólga þarf helst að vera komin niður í um 3,5% á næsta ári og svo áfram niður í átt að verðbólgumarkmiði seðlabankans (2,5%) eða neðar á næstu árum. Þetta eru raunhæf markmið sem kjarasamningurinn skapar. Samhliða þessu er óhjákvæmilegt að seðlabankinn lækki stýrivexti og að bankar og lífeyrissjóðir lækki vexti húsnæðislána kröftuglega, bæði nafnvexti og raunvexti.

Lækkun vaxta mun bæði létta greiðslubyrði húsnæðisskulda heimilanna og greiða fyrir örari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, sem mikil þörf er á. Það er nauðsynlegt til að halda aftur af of miklum hækkunum íbúðaverðs, sem illa hefur gengið að hemja á síðustu árum. 

Velferðarumbætur fyrir heimilin

Framlag ríkisins er sérstaklega mikilvægt til að aftra því að litlar launahækkanir bitni illa á lægri og milli tekjuhópum. Heimili í þeim hópum munu fá verulegar kjarabætur af þeim umbótum sem fylgja auknu framlagi ríkisins upp á 20-25 milljarða á ári, bæði í efld tilfærslukerfi og aðrar velferðarumbætur. 

Án þessa framlags hins opinbera hefðu stórir hópar fólks sem nú glíma við erfiða afkomu þurft að bera enn auknar byrðar til að ná verðbólgu niður. Raunar standa velferðarumbæturnar undir um tveimur þriðju af þeim kjarabótum sem koma til á fyrsta ári kjarasamningsins og koma þannig sem verulega uppbætur á laun. Kjarastaða láglaunafólks og millihópa mun því batna fljótlega.

Með þessum kjarasamningi hefur verið sýnt að þegar aðilar vinnumarkaðarins og hið opinbera leggjast saman á árarnar og róa í sömu átt þá er hægt að bæta kjörin og leggja um leið betri grunn að stöðugleika í efnahagslífinu og í afkomu heimilanna. 

Spjótin munu í framhaldinu standa sérstaklega á fyrirtækin, þjónustuaðila og fjármálastofnanir um að skila almenningi þeim lækkunum á framfærslukostnaði sem þurfa að koma hratt, bæði með lækkun verðlags og vaxta. Ef allir aðilar skila sínu verða aðstæður heimila og þjóðarbús mun betri á næstu árum.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.