Breytingar á samþykktum sjúkrasjóðs samþykktar samhljóða

31. 05, 2024
Frá atkvæðagreiðslunni á aðalfundinum. [Mynd: Heiða Helgadóttir]

Á aðalfundi Eflingar stéttarfélags, sem fram fór 23. maí síðastliðinn, voru samþykktar breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs félagsins. Umræddar breytingar snúa einkum að hámarkslengd þess tíma sem sjúkradagpeningar eru greiddir út. Með breytingunum hafa samþykktir sjúkrasjóðsins verið færðar í átt að því sem tíðkast almennt hjá aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) en þær hafa engin áhrif á réttindi þeirra félagsmanna sem þegar njóta greiðslna sjúkradagpeninga. 

Stærsti þáttur umræddra breytinga, sem taka gildi frá og með 1. júní næstkomandi, felst í því að hámarks lengd þess tíma sem félagsmenn geta notið sjúkradagpeningagreiðslna var færð úr 180 dögum og í 120 daga. Sem fyrr segir er það breyting sem er í samræmi við viðmiðunarreglur ASÍ en um margra ára skeið hafa réttindi Eflingarfélaga verið umtalsvert meiri en flestra annarra félagsmanna aðildarfélaga ASÍ. 

Breytingarnar voru viðbragð við versnandi fjárhagsstöðu sjúkrasjóðsins, en mikil ásókn hefur verið í sjúkradagpeninga síðustu tvö ár. Hafa útgreiddir dagpeningar og styrkir verið langt umfram þau iðgjöld sem greidd hafa verið til sjóðsins síðastliðin tvö ár og við því var nauðsynlegt að bregðast.