Efling er raunverulegt hreyfiafl breytinga – Ávarp formanns á aðalfundi

27. 05, 2024
Sólveig Anna formaður Eflingar flytur ávarp sitt. [Mynd: Heiða Helgadóttir]

Úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandinu, SGS, styrkti stöðu Eflingar þvert á það sem haldið var fram. Eðlilegt var að taka ákvörðun um úrsögnina, enda Efling stærsta félag verkafólks á Íslandi og annað stærsta stéttarfélag landsins, og því rétt að félagið eigi beina aðild að Alþýðusambandi Íslands. 

Þetta er meðal þess sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, nefndi í ávarpi sínu á aðalfundi stéttarfélagsins síðastliðinn fimmtudag. „Í kjarasamingsviðræðunum í vetur gerðist það sem ég hafði fulla trú á að myndi gerast; Efling leiddi ásamt félögum okkar í Breiðfylkingunni viðræður við Samtök atvinnulífsins. Þvert á það sem að haldið var fram hefur úrsögn Eflingar úr SGS ekki skaðað hagsmuni félagsins; staða okkar nú sterkari en áður á vettvangi hreyfingarinnar, sem og annarsstaðar,“ sagði Sólveig Anna.

Í ávarpi sínu fór Sólveig Anna yfir sviðið hvað viðkom verkalýðsbaráttunni og starfsemi Eflingar á liðnu ári. Hún nefndi þannig að eftir afar erfiða kjaradeilu veturinn 2023 hafi Eflingarfélögum orðið ljóst að hefja þyrfti undirbúning næstu viðræðna, enda samningarnir sem náðust á síðasta ári aðeins til eins árs. Hafi stjórn félagsins verið algjörlega sameinuð í því áliti sínu að nauðsynlegt væri að félög ASÍ færu sameinuð í viðræður til langtíma kjarasamninga á almennum markaði. „Við vissum að ekki væri hægt að knýja á um aðkomu stjórnvalda nema stór hópur félaga gengi sameinaður til viðræðna. Það var algjörlega augljóst eftir fáránlega og ömurlega atburðarás vetrarins á undan.“

Baráttuvilji Eflingarfélaga var lykillinn

Í undirbúningnum að þeim samningaviðræðum naut félagið einstakrar þekkingar sérfræðings Eflingar, Stefáns Ólafssonar, þar sem hann skoðaði sérstaklega þróun velferðarkerfisins á síðustu árum og áratugum. „Sú skoðun sýndi að vinnandi fólk hafði tapað tugum þúsunda á mánuði í skattfrjálsum velferðabótum vegna niðurrifs og niðurskurðaráherslna stjórnmálafólks.“

Stefán Ólafsson (t.v.) fylgist hér grannt með fundinum. Við hlið hans situr Garðar Þór Stefánsson, endurskoðandi frá Deloitte. [Mynd: Heiða Helgadóttir]

Með þær niðurstöður í farteskinu tókst að mynda samstöðu milli félaga Alþýðusambandsins og úr varð að Breiðfylking verkalýðsfélaga svokölluð gekk sameinuð til viðræðna. Sú nálgun varð til þess að samningar náðust, einkum vegna þess að stjórnvöld féllust á að því sem næst tvöfalda útgjöld til velferðarmála sem hlutfall af landsframleiðsu. „Við í samninganefnd Eflingar erum stolt af þessari niðurstöðu. Við vitum að baráttuvilji Eflingarfólks undanfarin ár var ekki síst það sem gerði Breiðfylkingunni kleyft að ná góðum árangri gagnvart stjórnvöldum,“ sagði Sólveig Anna í ávarpi sínu. 

Sólveig Anna rakti einnig hversu almenn og virk þátttaka félagsfólks er í störfum Eflingar, til að mynda hafi 85 félagar setið í samninganefnd, þar sem mikil samstaða hafi allan tíman ríkt. Innan stjórnar ríki mikil samstaða einnig, aðsókn að trúnaðarmannanámskeiðum hafi margfaldast og staða félagsins er öll hin traustasta. 

„Ég er stolt þegar ég horfi yfir salinn og sé stóran hóp af frábæru Eflingarfólki samankomnu. Efling hefur skapað sér þá stöðu að vera raunverulegt hreyfiafl breytinga og framfara í íslensku samfélagi. Við erum á réttri braut og höldum áfram að feta hana,“ sagði Sólveig Anna.  

Samstaða og góð stemning einkenndi fundinn. [Mynd: Heiða Helgadóttir]

Hér má nálgast ársskýrslu Eflingar stéttarfélags 2023-2024, sem kynnt var á aðalfundinum í síðustu viku.