Kjarasamningur Eflingar við NPA miðstöðina samþykktur

24. 05, 2024

Nýr kjarasamingur milli Eflingar stéttarfélags og NPA miðstöðvarinnar var samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal Eflingarfélaga með yfirgnæfandi meirihluta. Alls samþykktu 89 prósent þeirra félagsmanna Eflingar sem eftir kjarasamningunum starfa hinn nýja samning. Atkvæðagreiðslu lauk síðastliðinn mánudag. 

Kjarasamningurinn á við um þá félagsmenn sem starfa sem aðstoðarfólk fatlaðs fólks í NPA. Samningarnir innibera samskonar hækkanir á launatöflum og í kjarasamningum Eflingar við Samtök atvinnulífsins og tekur samningurinn mið af þeim samningi. 

Kjarasamningurinn gildir afturvirkt frá 1. febrúar 2024 og til 1. febrúar 2028. Eru þeir Eflingarfélagar sem samningurinn gildir um hvattir til að fara yfir launaseðla sína við næstu útborgun til að tryggja að allar kjarabætur hafi skilað sér. 

Hér má finna nýjan kjarasamning Eflingar stéttarfélags við NPA miðstöðina.

Hér má finna nýjan sérkjarasaming Eflingar stéttarfélags við NPA miðstöðina um frávik frá vakta- og hvíldartíma.