Efling stéttarfélag vekur athygli félagsfólks síns á því að samkvæmt flestum kjarasamningum skulu vinnuveitendur greiða orlofsuppbót 1. júní næstkomandi til viðbótar við regluleg laun. Eru félagsmenn því hvattir til að veita því sérstaka athygli hvort sú greiðsla skili sér ekki örugglega í næstu útgreiðslu launa, með því að fara yfir launaseðil sinn af kostgæfni. Leiki vafi á að orlofsuppbót hafi verið rétt greidd út eða aðrar spurningar vakna er félagsfólki bent á að hafa samband við trúnaðarmenn á vinnustöðum sínum, eða stéttarfélagið sjálft.
Orlofsuppbót er föst fjárhæð og orlof reiknast ekki ofan á hana. Uppbótin er greidd miðað við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót á að gera upp, komi til starfsloka.
Athugið að enn hafa ekki náðst kjarasamningar í ýmsum geirum. Í þeim tilvikum gildir upphæð orlofsuppbótar fyrir árið 2023.
Orlofsuppbót á almenna vinnumarkaðnum
Orlofsuppbót greiðist 1. júní ár hvert.
Þeir sem hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu, 1. maí – 30. apríl ár hvert, eiga rétt á fullri uppbót eða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð, orlof reiknast ekki ofan á hana.
Fullt ársstarf m.v. 45 vikur að orlofi frádregnu. Þeir sem hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða er í starfi fyrstu viku í maí eiga rétt á uppbót.
Orlofsuppbót á að gera upp við starfslok.
Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar.
- Full orlofsuppbót 2024 er 58.000 kr
Orlofsuppbót þeirra sem vinna á hjúkrunarheimilum samkvæmt kjarasamningi við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu
Orlofsuppbót á að koma til greiðslu 1. júní ár hvert.
Þeir sem hafa starfað 13 vikur samfellt á orlofsárinu eða eru í starfi til 30. apríl eiga rétt á uppbót.
Þeir sem hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu, 1. maí – 30. apríl hvert ár, eiga rétt á fullri uppbót annars greiðist hún í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og orlof reiknast ekki ofan á orlofsuppbótina.
Orlofsuppbót á að gera upp við starfslok.
- Full orlofsuppbót 2023 er 56.000 kr.
Orlofsuppbót til handa starfsmönnum hótela og veitingahúsa
Orlofsuppbót greiðist 1. júní ár hvert.
Þeir sem hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu, 1. maí – 30. apríl ár hvert, eiga rétt á fullri uppbót eða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð, orlof reiknast ekki ofan á hana.
Fullt ársstarf m.v. 45 vikur að orlofi frádregnu eða 1800 klst. Þeir sem hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða er í starfi fyrstu viku í maí eiga rétt á uppbót.
Orlofsuppbót á að gera upp við starfslok.
Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar.
- Full orlofsuppbót 2023 er 56.000 kr.
Orlofsuppbót til handa starfsmönnum annarra sveitarfélaga
Undir önnur sveitarfélög falla; Hveragerði, Kópavogur, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Sveitarfélagið Ölfus.
Orlofsuppbót á að koma til greiðslu 1. maí ár hvert.
Starfsmaður í 100% starfshlutfalli fær greidda persónuuppbót 1. maí ár hvert. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag.
Hafi starfsmaður látið af störfum á árinu vegna aldurs skal hann fá greidda persónuuppbót hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.
Orlofsuppbót er föst fjárhæð og orlof reiknast ekki ofan á orlofsuppbótina.
- Full orlofsuppbót 2023 er 55.700 kr.
Orlofsuppbót til handa starfsmönnum Reykjavíkurborgar
Orlofsuppbót á að koma til greiðslu 1. júní ár hvert.
Þeir sem hafa starfað 13 vikur samfellt á orlofsárinu eða eru í starfi til 30. apríl eiga rétt á uppbót.
Þeir sem hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu, 1. maí – 30. apríl hvert ár, eiga rétt á fullri uppbót annars greiðist hún í samræmi við starfshlutfall og starfstíma. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og orlof reiknast ekki ofan á orlofsuppbótina.
Orlofsuppbót á að gera upp við starfslok.
- Full orlofsuppbót 2023 er 56.000 kr.
Orlofsuppbót til handa þeim sem starfa hjá ríkinu
Hinn 1. júní ár hvert skal starfsmaður sem er í starfi til 30. apríl næst á undan, fá greidda sérstaka eingreiðslu, orlofsuppbót, er miðast við fullt starf næstliðið orlofsár. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma. Hafi starfsmaður látið af störfum á orlofsárinu vegna aldurs eða eftir a.m.k. 3 mánaða/13 vikna samfellt starf á orlofsárinu, skal hann fá greidda orlofsuppbót hlutfallslega miðað við unninn tíma og starfshlutfall. Sama gildir ef starfsmaður var frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum. Orlofsuppbót er föst fjárhæð og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum samningsins. Á orlofsuppbót reiknast ekki orlofsfé.
- Full orlofsuppbót 2023 er 56.000 kr.