Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Eflingar stéttarfélags og Reykjavíkurborgar hófst klukkan 17:00 í gær. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til klukkan 10:00 að morgni föstudagsins 5. júlí næstkomandi.
Samninganefnd Eflingar náði samkomulagi við samninganefnd Reykjavíkurborgar fyrir viku síðan, 20. júní. Það er mat samninganefndarinnar að góður árangur hafi náðst við samningaborðið. Samningurinn inniheldur sambærilegar launahækkanir og kjarasamningur Eflingar á almenna markaðnum en auk þess náðist góður árangur í að fjölda undirbúningstímum starfsmanna á leikskólum borgarinnar. Þá náðist góður árangur einnig í ýmsum umbótamálum sem Efling hafði sett á oddinn í samningaviðræðunum.
Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn fer fram á Mínum síðum Eflingar og er allt félagsfólk sem starfar hjá borginni hvatt til að kynna sér samninginn og nýta atkvæðisrétt sinn. Bent er á að þörf er á rafrænum skilríkjum til að kjósa.