Efling leitar að liðsauka

11. 06, 2024

Efling stéttarfélag leitar nú að öflugu fólki til að koma til liðs við félagið á skrifstofu þess. Aukin verkefni og meiri umsvif kalla á að fjölgað verði í teymi félagsins í Guðrúnartúni 1, þar sem fyrir starfar samheldinn og kraftmikill hópur fólks sem vinnur að bættum kjörum og réttindum félagsfólks. 

Um er að ræða fjórar stöður sem félagið hyggst ráða í. Í fyrsta lagi er auglýst eftir fulltrúa til starfa á þjónustusviði skrifstofunnar en sviðið sinnir almennri móttöku erinda og afgreiðslu umsókna í sjóði félagsins. 

Hér má nálgast nánari lýsingu á starfi á þjónustusviði og hlekk til að sækja um starfið.  

Í öðru lagi leitar Efling að starfsmanni á vinnuréttindasvið en starfsfólk sviðsins veitir félagsfólki þjónustu og ráðgjöf á grundvelli kjarasamningsbundinna réttinda þess og íslenskra laga. 

Hér má nálgast nánari lýsingu á starfi á vinnuréttindasviði og hlekk til að sækja um starfið. 

Þá hyggst Efling ráða til starfa tvo starfsmenn á svið fræðslu- og félagsmála. Meginmarkmið sviðsins er fjölgun virkra félagsmanna og styrking þeirra í gegnum fræðslu, þjálfun, stuðning og þátttöku í innra starfi félagsins. Sviðið annast einnig skipulagningu fræðslu og skemmtiviðburða fyrir alla félagsmenn. 

Hér má nálgast nánari lýsingu á störfum á sviði fræðslu- og félagsmála.

Efling er annað stærsta stéttarfélag landsins og lang stærsta félag verkafólks. Skrifstofa félagsins er einn þeirra vinnustaða sem tók þátt í vinnustaðakönnuninni Fyrirtæki ársins 2024, sem Gallup framkvæmdi. Niðurstaða könnunarinnar sýndi að heildareinkunn Eflingar sem vinnustaðar er hærri en sambærilegra vinnustaða og hækkaði einkunn vinnustaðarins á því sem næst öllum sviðum sem mæld eru í könnuninni milli ára. 

Framkvæmdastjóri Eflingar stéttarfélags er Perla Ösp Ásgeirsdóttir og formaður félagsins er Sólveig Anna Jónsdóttir.