Frábær niðurstaða Eflingar í mælingum á Fyrirtæki ársins

Skrifstofa Eflingar stéttarfélags var meðal þeirra vinnustaða sem tóku þátt í vinnustaðakönnuninni Fyrirtæki ársins 2024, sem Gallup framkvæmir árlega. Skemmst er frá því að segja að einkunn Eflingar hækkaði frá fyrra ári í því sem næst öllum þeim þáttum sem mældir eru í könnuninni. Heildareinkunn Eflingar sem vinnustaðar hækkaði þannig markvert milli ára og er heildareinkunn vinnustaðarins hærri en meðaleinkunn annarra sambærilegra vinnustaða.

Könnunin er framkvæmd með spurningakönnun meðal starfsfólks og eru gefnar einkunnir á kvarða á bilinu 1-5 við hverja spurning. Svör eru síðan vegin saman og heildareinkunn gefin fyrir níu þætti í starfsemi fyrirtækisins.

Einkunn Eflingar hækkar í öllum þáttum milli ára utan einum. Það er þátturinn vinnuskilyrði en sem kunnugt er, er skipulag starfsstöðvar Eflingar komið til ára sinna, þar eð það var tekið í notkun árið 2000. Á þessu verður hins vegar ráðin bót þegar á þessu ári, þar eð búið er að endurhanna starfsstöðina og er undirbúningur að framkvæmdum þegar hafin. Reiknað er með að þær framkvæmdir klárist fyrri hluta árs 2025 og má þá ætla að vinnuskilyrði á skrifstofu Eflingar verði orðin til mikillar fyrirmyndar.

Þegar horft er til þeirra þátta sem mældir eru hækkaði einkunn Eflingar mest milli ára þegar spurt var um ímynd Eflingar, um alls 0,57 stig. Þá jókst ánægja með stjórnun á vinnustaðnum verulega, um heil 0,45 stig á milli ára. Enn fremur jókst ánægja og stolt yfir vinnustaðnum um 0,37 stig milli ára.

Hæst skorar skrifstofa Eflingar þegar spurt er um jafnrétti, og fær heildareinkunnina 4,62 á kvarðanum, sem er eilítil hækkun frá fyrra ári. Heildareinkunn vinnustaðarins er 4,33 og hækkar um 0,23 stig milli ára.

Þegar horft er til samanburðar við aðra vinnustaði í þeim þáttum sem könnunin mælir kemur í ljós að Efling skorar hærra en bæði vinnustaðir að sambærilegri stærð, sem og allir vinnustaðir sem tóku þátt , í sex þáttum af níu, og er á pari í þeim sjöunda. Í sumum tilvikum er einkunnin verulega mikið hærri, svo sem í þættinum þar sem jafnrétti á vinnustaðnum er mælt.

Í könnuninni var einnig spurt um hvort starfsfólk teldi Eflingu vera fjölskylduvænan vinnustað og er niðurstaðan þar mjög ánægjuleg. Þar er einkunn Eflingar hærri en sambærilegra vinnustaða í öllum spurningum og hærri eða á pari við alla vinnustaði.