Efling og borgin funda með ríkissáttasemjara á fimmtudag

Fyrsti fundur eftir að kjaradeilu Eflingar stéttarfélags við Reykjavíkurborg var vísað til ríkissáttasemjara verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 6. júní. Efling vísaði kjardeilunni til ríkissáttasemjara 27. maí síðastliðinn.

Viðræður við viðsemjendur hjá borginni höfðu þá staðið vikum saman, allt frá því um miðjan apríl síðastliðinn. Kjarasamningur Eflingar og Reykjavíkurborgar rann út 31. mars síðastliðinn.

Í yfirlýsingu samninganefndar Eflingar, þegar deilunni var vísað til sáttasemjara, kom fram að fjölmargir fundir hefðu farið fram en án nokkurs sjáanlegs árangurs. Skýrt hefði verið sett fram af hálfu Eflingar að krafan væri sú að launastefnu þeirri sem mótuð var í kjarasamningum á almenna markaðnum ætti að fylgja. Því væri undarlegt að upplifa að þrátt fyrir þetta væri borgin áhugalítil um að ræða bráðnauðsynleg umbótmál fyrir ómissandi starfsfólk sitt. Með því að vísa deilunni til ríkissáttasemjara vonaðist samninganefndin til að viðræður færu að skila árangri.