Efling stéttarfélag óskar félagsfólki sínu og landsmönnum öllum gleðilegs þjóðhátíðardags, á 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands.
Efling vill minna félagsmenn sína sem eru við vinnu í dag, á að 17. júní er stórhátíðardagur og skal greiða laun fyrir vinnu í dag með stórhátíðarálagi. Þá hvetur Efling íslenska félagsmenn sína til að vekja athygli erlendra félaga sinna á því einnig.
Í baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði sínu átti róttæk verkalýðshreyfing sannarlega sinn þátt. Róttæk verkalýðsbarátta er enn sá aflvaki framfara sem færa mun almenningi á Íslandi aukin réttindi, bætt kjör og jöfnuð. Því skulum við ekki gleyma í dag þegar við fögnum þjóðhátíðardeginum.
Í leiðara Þjóðviljans hinn 17. júní 1955 skrifar leiðarahöfundur:
„Verkalýðshreyfingin á Íslandi, heildarsamtök alþýðunnar í verkamannafélögunum og í verkalýðsflokkunum, er eina þjóðfélagsaflið á Íslandi, sem á þá hugsjón, það reginafl og þann skilning á þjóðfélagsmálum sem þarf til að veita þjóðinni forystu til framtíðarinnar, forystu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, jafnt á stjórnmálasviði og í baráttu fyrir efnahagslegu sjálfstæði og velmegun.“
Þessi skrif eiga rétt eins við í dag og fyrir 69 árum síðan, þegar lýðveldið var aðeins ellefu ára gamalt. Sameinað afl Eflingarfélaga hefur, og mun áfram, skilað verkafólki verulegum kjara- og réttarbótum. Sú barátta mun skila sjálfstæðu fólki í sjálfstæðu landi.
Skáldið og verkamaðurinn Kristján frá Djúpalæk orti svo í ljóðinu Þetta land:
Þetta land geymir allt, sem ég ann.
Býr í árniði grunntónn míns lags.
Hjá þessari jurt veit ég blómálf míns brags.
Milli bjarkanna yndi ég fann.
Ber mér útræna ilminn frá sjó.
Blærinn angan frá lyngi í mó.
Djúpa hugró á fjöllum ég finn.
Meðal fólksins er vettvangur minn.
Þetta land skamma stund bjó mér stað.
Ég er strá í þess mold. Ég er það.