Greiða á ræstingarauka um næstu mánaðamót – Mikilvægt að fara vel yfir launaseðla

14. 08, 2024

Ákvæði um nýjan ræstingarauka, sem samið var um í kjarasamningum á almenna markaðnum í vor, tók gildi nú í byrjun mánðarins. Það þýðir að þegar laun fyrir ágústmánuð verða greidd um næstu mánaðamót á ræstingarfólk á fá sérstaka viðbótargreiðslu. Eru Eflingarfélagar sem starfa við ræstingar því hvattir til að fylgjast vel með launaseðlum sínum við næstu útgreiðslu launa og tryggja að sú uppbót hafi skilað sér. 

Ræstingarauka skal greiða mánaðarlega en fyrir fullt starf er upphæðin 19.500 krónur. Ræstingarauki reiknast í hlutfalli við starfshlutfall en er ekki hluti af grunnlaunum og hefur því ekki áhrif til hækkunar á tímakaupi, vaktaálagi eða yfirvinnuálagi. 

Sem fyrr segir á að greiða sérstaka ræstingaraukann út í fyrsta skipti um næstu mánaðamót. Mun upphæðin birtast sem sérstök lína á launaseðli og því á að vera auðvelt fyrir Eflingarfélaga að sannreyna að þeir hafi fengið hann greiddan þegar laun fyrir ágústmánuð verða greidd út.

Hér má kynna sér betur kjarasamning Eflingar og SA frá því í vor að því er varðar ræstingarfólk.