Umsóknarfrestur um nám í Félagsliðagátt rennur út mánudaginn 12. ágúst næstkomandi og eru Eflingarfélagar sem hafa hug á að stunda námið í vetur því hvattir til að sækja um fyrir þann tíma.
Félagsliðagátt er ætluð fólki sem vinnur við umönnun, til dæmis á öldrunarheimilum, í heimaþjónustu eða heimahlynningu. Markmið námsins er að auka þekkingu, færni og fagkunnáttu.
Félagsliðagátt er fyrir þá sem hafa náð 22 ára aldri og hafa að minnsta kosti þriggja ára reynslu við umönnunarstörf. Þá þurfa nemendur að hafa lokið 190 klukkustundum af starfstengdum námskeiðum, til að mynda Fagnámskeiðum 1 og 2 í umönnun. Rétt er að benda á þau námskeið verða haldin í vetur og verða betur kynnt á næstunni hér á síðunni. Þá eru framhaldsskólaeiningar metnar ef áfangar eru þeir sömu eða sambærilegir við þá sem kenndir eru í Félagsliðagátt.
Námið fer fram hjá Mími, Höfðabakka 9, og hefst kennslutímabilið 5. september og stendur til 10. júní á næsta ári. Nemendur ljúka 4 önnum af 6 hjá Mími en til að útskrifast sem félagsliði ljúka nemendur síðustu tveimur önnunum í framhaldsskóla. Námið fer fram á íslensku. Frekari upplýsingar um námið má finna hér.
Starfsmenntasjóðir Eflingar greiða námskeiðsgjald að fullu fyrir þá félaga sem starfa hjá opinberum launagreiðendum. Umsóknir eru gerðar í gegnum vef Mímis og svarar starfsfólk Mímis spurningum um umsóknarferlið: https://www.mimir.is/is/nam/namsbrautir/felagslidagatt