Bleikur október – Munum eftir krabbameinsskimunum

17. 10, 2024

Í tilefni af bleikum október, og bleika deginum þann 23. október, hvetur Efling stéttarfélag allar konur og kvár til að fara í krabbameinsskoðanir. Vissir þú að konur og kvár eiga rétt á að skreppa úr vinnu til að fara í skimun fyrir krabbameini?

Boð í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini berst með bréfi og í gegnum vefinn Heilsuvera.is. Það kostar nú aðeins 500 krónur að koma í skimun og hún tekur aðeins um 10 mínútur.

Efling greiðir allt að 100% af kostnaði krabbameinsskoðana vegna legháls og brjósta fyrir félagsfólk. Það á við um bæði grunn- og framhaldsskoðanir. Hægt er að lesa meira um forvarnarstyrki sem bjóðast félagsfólki Eflingar HÉR.

Brjóstaskimanir eru framkvæmdar á Brjóstamiðstöð Landspítalans við Eiríksgötu 5 í Reykjavík. Konur sem fá boð geta bókað tíma í síma 543 9560 eða með tölvupósti á brjostaskimun@landspitali.is. Nánari upplýsingar um skimanir má finna HÉR.

Leghálsskimanir eru framkvæmdar af ljósmæðrum á öllum heilsugæslustöðvum. Konur sem fá boð geta bókað tíma eða mætt í opið hús. Sumar heilsugæslustöðvar eru með opið hús milli klukkan 15:00 og 17:00 alla fimmtudaga til 21. nóvember.

Hægt er að versla bleiku slaufuna og fleira til styrktar baráttunni gegn krabbameinum á vefverslun krabbameinsfélagsins HÉR.