Kosning um nýjan kjarasamning við SFV hafin

Kosning um nýjan kjarasamning Eflingar stéttarfélags við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) er hafin en samningurinn var undirritaður aðfararnótt síðastliðins fimmtudags, 3. október. Atkvæðagreiðslunni lýkur eftir viku, á hádegi þriðjudaginn 15. október. 

Neðst í fréttinni má nálgast kjarasamninginn sjálfan, sem og fundargerð Eflingar og SFV sem er hluti samningsins.

Kynningarfundur um samninginn verður haldinn á morgun, 10. október, klukkan 17:00 í Félagsheimili Eflingar, 4. hæð í Guðrúnartúni 1. Húsið opnar 16:30 og boðið verður upp á snarl, kaffi og drykki. Þau sem hyggjast mæta á fundinn eru beðin um að staðfesta komu á þar til gerðu eyðublaði sem má nálgast hér.

Um er að ræða fyrsta sjálfstæða kjarasamninginn sem Efling gerir fyrir hönd félagsmanna sinna sem starfa á hjúkrunarheimilum en fram til þessa hafa þeir fylgt kjarasamingum við ríkið. 

Meginkrafa samninganefndar Eflingar í viðræðum við SFV var að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimila. Sú krafa náði fram að ganga en samhliða samningnum var gert samkomulag við stjórnvöld þar sem þau skuldbundu sig til að bregðast við. Það skulu þau gera með því að leggja fram fjármagnaðar og tímasettar lausnir á manneklunni eigi síðar en 1. apríl næstkomandi. Verði ekki orðið við því er Eflingu heimilt að segja samningnum upp. 

Samningurinn gildir um þá Eflingarfélaga sem vinna hjá Alzheimersamtökunum, á Eir, Skjóli og Hömrum, Grundarheimilunum (Grund, Ási og Mörk), Heilsustofnun NLFÍ, Heilsuvernd Vífilsstöðum, Hlíðarbæ/Múlabæ, Hrafnistu (Boðaþingi, Laugarási, Skógarbæ og Sléttuvegi), hjá Kjarki endurhæfingu, á MS Setrinu, á Reykjalundi endurhæfingu, hjá SÁÁ, Öldungi(Sóltún) og Vigdísarholti (Sunnuhlíð og Seltjörn). Eru félagar allir hvattir til að kynna sér samninginn og greiða um hann atkvæði. 

Hér má sjá frétt um undirritum kjarasamningsins.

Hér má nálgast beinan link á atkvæðagreiðsluna. 

Hér að neðan má sjá kjarasamninginn sjálfan.

Þá er hér að neðan hægt að lesa fundargerð frá fundi Eflingar og SFV 2. október síðastliðinn, en fundargerðin er hluti af kjarasamningnum sjálfum. Í henni er meðal annars fjallað um útfærslur á stofnanasamningum er snúa að sérstakri ábyrgð í starfi, hinu nýja starfsheiti hópstjóra og um heimaþjónustu.