Efling óskar eftir því að Vinnumálastofnun grípi til aðgerða

Efling stéttarfélag hefur sent erindi til Vinnumálastofnunar vegna svokallaðs kjarasamnings SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, og gervistéttarfélagsins Virðingar.

Í erindinu sem stílað er á Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, er rakið að Efling hafi tekið kjarasamninginn til skoðunar og telji hann vera í ósamræmi við lög og lágmarkskjör á vinnumarkaði. Bendir Efling á að samningurinn sé ósamrýmanlegur greinum laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og laga um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þá séu einnig ákvæði í kjarasamningnum sem kunni að vera gagnstæð ýmsum lögum, eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Má þar nefna ákvæði laga um 40 stunda vinnuviku, ákvæði laga um orlof, ákvæði laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, auk annars.

Í erindi Eflingar eru þá tilgreind önnur þau rök sem Efling hefur haldið á lofti undanfarna daga í gagnrýni sinni á kjarasamninginn svokallaða.

Erindi Eflingar er sent Vinnumálastofnun í ljósi þess að hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að aðstoða við atvinnuleit einstaklinga, og að stofnunin hefur hlutverki að gegna við útgáfu atvinnuleyfa. Vakin er sérstök athygli á að samkvæmt lögum er það almennt skilyrði atvinnuleyfis að útlendingum séu tryggð laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga.

„Af þessum sökum og með vísan til alls framangreinds óskar Efling eftir því að Vinnumálastofnun grípi til viðeigandi aðgerða og eftirlits, í samræmi við heimildir stofnunarinnar, til þess að tryggja réttindi hlutaðeigandi launafólks. Í þessum tilgangi lætur Efling stofnuninni í té félagatal Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði frá 11. september 2023,“ segir í erindi Eflingar, sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður ritar undir.