Efling stéttarfélag byrjar nýja árið af krafti og býður félagsfólki upp á fjöldann allan af spennandi viðburðum og námskeiðum sem félagið hvetur félagsfólk til að skrá sig á. Námskeiðin eru í boði fyrir félagsfólk endurgjaldslaust og leggur félagið upp úr því að bjóða upp á þau á íslensku, ensku og pólsku.
Viðfangsefni námskeiðanna eru allt frá því að vera almenn fræðsla fyrir félagsfólk eða sértækari námskeið sem ætluð eru til að auka hæfni félagsfólks í ákveðnum starfsgreinum. Athugið að sum fagnámskeið geta veitt félagsfólki launahækkun í sinni atvinnugrein.
Fyrsti viðburður ársins er félagsfundur Eflingar sem haldinn verður 9. janúar. Fundurinn verður samtímis fundur trúnaðarráðs. Farið verður m.a. yfir störf trúnaðarráðs, hlýtt verður á kynningu á starfsemi Eflingar og íslensku verkalýðshreyfingarinnar auk þess verða kynntar aðgerðir vegna gervistéttarfélags í veitingageiranum, Sjá meira HÉR. Í janúar og febrúar verða einnig í boði frábær námskeið sem allir Eflingarfélagar ættu að kynna sér; réttindi og skyldur á vinnumarkaði, námskeið í grunnatriðum verkalýðsbaráttunnar og skattkerfið á Íslandi.
Á döfinni eru einnig sértækari námskeið, líkt og Fagnámskeið í umönnun 1 og Fagnámskeið í umönnun 2 fyrir Eflingarfélaga sem starfa við heilbrigðis- og félagsþjónustu. Námskeiðin eru ætluð þeim sem aðstoða, annast um eða hlynna að sjúkum, fötluðum og öldruðum á einkaheimilum eða stofnunum. Einnig þeim sem aðstoða skjólstæðinga við innkaup, þrif og persónulega umhirðu. Þau fagnámskeið eru undanfari að námi í félagsliðabrú og byrja í janúar. Þá verða í boði fagnámskeið fyrir starfsmenn leikskóla: Starfsmenn leikskóla – fagnámskeið 1 og Starfsmenn leikskóla – fagnámskeið 2. Lögð verður áhersla á bæði námsþætti sem styrkja persónulega og almenna færni t.d. sjálfstyrkingu og samskipti, námstækni og svo þætti eins og þroska og þróun leikskólabarna, listastarf með börnum, námskrá leikskóla, fjölmenningarlegan leikskóla og fleira. Þau námskeið eru undanfari náms í leikskólaliðabrú og byrja í maí og júní.
Í febrúar verður í boði námskeið í grunnatriðum verkalýðsbaráttunnar fyrir virka félagsmenn sem hafa áhuga á verkalýðsbaráttunni. Í mars verða svo haldin starfslokanámskeið fyrir þá félaga sem eru farnir að huga að starfslokum. Þar verður farið yfir hagnýtar upplýsingar varðandi þessi tímamót en með góðum undirbúningi er hægt að gera þessa miklu breytingu á lífi fólks jákvæða. Sjá meira um námskeiðið HÉR. Efling mun svo fara af stað með nýtt námskeið fyrir verðandi foreldra í lok mars þar sem farið verður yfir ýmis atriði til að undirbúa nýja foreldra fyrir þau stóru tímamót í lífi sínu. Nánari upplýsingar um það námskeið eru væntanlegar.
Trúnaðarmannanámskeiðin verða einnig á sínum stað en trúnaðarmenn gegna mjög mikilvægu hlutverki í starfi Eflingar og félagið leggur mikla áherslu á að fjölga þeim, sem og að veita þeim öfluga fræðslu, þjálfun og stuðning. Sjá meira um trúnaðarmenn og næstu trúnaðarmannanámskeið HÉR.