Eins og greint var frá í gær, 27. febrúar 2025, ákvað samninganefnd Eflingar stéttarfélags að segja upp kjarasamningi vegna félagsmanna í störfum á hjúkrunarheimilum. Um þetta var Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) tilkynnt í gær á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Á umræddum fundi rakti samninganefnd Eflingar forsendur þess að samningnum væri sagt upp. Uppsögnin var gerð með vísun í forsenduákvæði kjarasamningsins. Það ákvæði gerði ráð fyrir að lögð yrði fram tímasett áætlun um hvernig viðmiðum um lágmarksmönnun á hjúkrunarheimilum yrði náð. Starfshópi sem vinna átti slíka áætlun mistókst að skila slíkri áætlun en skilaði aðeins af sér minnisblaði 18. febrúar síðastliðinn.
Á fundinum fór samninganefnd Eflingar ítarlega yfir forsögu málsins, tímalínu þess og niðurstöðu. Sú yfirferð er á meðfyglgjandi glærum sem kynntar voru fulltrúum SFV í gær. Glærurnar eru á íslensku og ensku. Eru þær birtar hér til þess að Eflingarfélagar, sem og aðrir, geti kynnt sér þær forsendur sem lágu til grundvallar þess að samninganefnd Eflingar ákvað að segja upp samningnum.