Eflingarfélagar krefjast þess að ræstingafyrirtæki láti af brotum sínum

Efling skorar á Samtök atvinnulífsins að standa við gerða kjarasamninga og ræstingafyrirtæki að láta af kjarasamnings- og réttindabrotum án tafar. Jafnframt skorar Efling á ríkisstjórnina að standa við loforð um að vinnuaðstæður ræstingafólks verði bættar og kjarasamningum fylgt, ekki síst í innkaupum opinberra stofnana.

Þetta kemur fram í sameiginlegri áskorun félags- og trúnaðarráðsfundar félagsins. Fundurinn, sem fór fram í gær, var gríðar fjölmennur. Eflingarfélagar af fjölmörgum þjóðernum sem vinna við ræstingar sóttu fundinn og samþykktu samhljóða áskorunina. Hana má lesa hér að neðan. 

Áskorun sameiginlegs félags- og trúnaðarráðsfundar Eflingar

Efling stéttarfélag skorar á Samtök atvinnulífsins að standa við gerða kjarasamninga. Það felur í sér að umsamin hlutdeild ræstingafólks í áætluðu heildarsvigrúmi kjarasamninganna verði tryggð.

Jafnframt felur það í sér að kjör starfsfólks séu ekki rýrð með því að afnema greiðslur fyrir tímamælda ákvæðisvinnu án þess að vinnuskipulagi sé breytt.

Að endingu krefst félagið þess að atvinnurekendur í ræstingageiranum láti af kjarasamningsbrotum og starfsháttum þar sem verkafólk vinnur undir óeðlilegum vinnuhraða og álagi. 

Efling – stéttarfélag skorar jafnframt á ríkisstjórn Íslands að standa við fyrirheit sem gefin hafa verið um að beita sér í þágu þess að bæta vinnuaðstæður og tryggja fylgni við kjarasamninga í geiranum, sér í lagi þar sem um opinberar útvistanir er að ræða.

Efling og Starfsgreinasambandið hafa lagt fram rökstuddar tillögur við forsætis- og félagsmálaráðherra. Efling hvetur til þess að vinna við úrbætur á grunni þeirra verði hafin án tafar.

Við erum ómissandi.

Við sköpum verðmætin.

Við krefjumst virðingar.