Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja skerða réttindi stéttarfélaga og verkafólks 

Frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins til breytinga á lögum um  stéttarfélög og vinnudeilur er illa ígrundað, ekki til þess fallið að ná settum markmiðum heldur þvert á móti, og myndi skerða réttindi stéttarfélaga og félagsmanna þeirra, næði það fram að ganga. Ekkert samráð var haft við verkalýðshreyfinguna við undirbúning frumvarpsins og leggst Efling stéttarfélag eindregið gegn því að það verða að lögum. 

Umrætt frumvarp er lagt fram af Jens Garðari Helgasyni ásamt níu öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Markmið frumvarpsins er að auka heimildir ríkissáttasemjara „með það að markmiði að bæta vinnubrögð og skilvirkni við kjarasamningsgerð“. Það á samkvæmt frumvarpinu að gerast með því að stórauka vægi miðlunartillagna ríkissáttasemjara og skerða verulega rétt stéttarfélga til vinnustöðvanna. Frumvarpinu er því í raun ætlað að takmarka verulega rétt stéttarfélaga til að semja um kjör og færa ákvörðun um efni kjarasamninga að miklu leyti í hendur ríkissáttasemjara.

Einkennileg afstaða til réttinda launafólks

Efling hefur sent nefndasviði Alþingis umsögn sína um frumvarpið. Þar er bent á að í besta falli sé villandi að halda því fram að frumvarpið miði að því að tryggja rétt félagsmanna stéttarfélaga, öllu heldur miðar það augljóslega að því að skerða réttindi þeirra og stéttarfélaga sem samtaka vinnandi fólks. 

Efling leggst því, sem fyrr segir, eindregið gegn því að frumvarpið hljóti brautargengi. „Frumvarpið virðist byggja á einkennilegri afstöðu til réttinda launafólks, á það jafnvel við um atriði sem hafa verið óumdeild í áratugi. Mætti raunar ætla að höfundar frumvarpsins telji að kjarabarátta og sjálfstæð samningsgerð stéttarfélaga sé til trafala. Þetta viðhorf litar umfjöllun frumvarpsins um eftirsóknarverð markmið á vinnumarkaði,“ segir í umsögn Eflingar sem lesa má hér að neðan.