Select Page

B-listi

Sólveigar Önnu Jónsdóttur

Formaður

Sólveig Anna Jónsdóttir – starfsmaður á leikskólanum Nóaborg, Reykjavíkurborg

Sólveig hefur frá árinu 2008 tekið þátt í baráttunni fyrir réttlátu samfélagi á fjölbreyttum vettvangi með ýmsum samtökum, bæði hérlendis sem og í Evrópu. Sólveig hefur síðastliðin ár barist, í ræðu og riti, fyrir hagsmunum verkakvenna. Sólveig er jafnframt ein af skipuleggjendum Róttæka sumarháskólans til margra ára.

Gjaldkeri

Magdalena Kwiatkowska – starfsmaður á Cafe Paris

Magdalena er 33 ára og vinnur á veitingastað. Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri og er með MA gráðu í íslensk/pólskum þýðingum. Það að eiga fjölskyldu sýnir mikilvægi þess að búa við öryggi. Hún krefst þess að rödd launafólk heyrist.

Meðstjórnendur

Aðalgeir Björnsson – Tækjastjóri hjá Eimskip, Sundahöfn

Aðalgeir hefur verið verkamaður hjá Eimskip í 12 ár, en starfaði áður við jarðvinnu og tækjavinnu. 41 árs, kvæntur faðir 3 ungra barna. Hann hefur lengi haft áhuga málefnum félagsins og vill taka þátt í starfinu til að búa sér og fjölskyldunni betri framtíð.

Anna Marta Marjankowska – starfsmaður hjá Náttúru þrif

Anna er fædd 1992. Hún starfaði við ýmis stjórnunarstörf tengd menningu og útgáfu í Póllandi, en hefur búið á Íslandi síðan í nóvember 2016 og sinnur nú hjá ræstingafyrirtæki. Starfar með Andrými – miðstöð grasrótarhreyfinga í Reykjavík.

Daníel Örn Arnarsson – starfsmaður hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu

Daníel vinnur hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, en er jafnframt í kennaranámi í fjarnámi. Hann er giftur og á tvö börn. Daníel þekkir stöðu barnafjölskyldna af eigin raun og vill berjast fyrir réttlátara samfélagi sem allir geti verið stoltir af.

Guðmundur Jónatan Baldursson – bílstjóri hjá Snæland Grímsson

Guðmundur er borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Undanfarin 5 ár hefur hann starfað sem hópferðabilstjóri og líkað vel. Hann segir fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa fengið tækifæri til að vaxa og dafna, en nú sé komið að starfsfólkinu, sem ætli að fá leiðrettingu á launum í næstu kjarasamningum.

Jamie Mcquilkin – starfsmaður Resource International ehf.

Jamie starfar við metangasgerð. Hann hefur verið virkur í verkalýðsmálum frá 2010 og hefur frætt útlendinga um réttindi á íslenskum vinnumarkaði sl. 4 ár. Jamie tekur þátt í rekstri félagsmiðstöðvarinnar Andrýmis og gefur kost á sér af því að hann vill auka lýðræði og samstöðu meðal innflytjenda í Eflingu.

Kolbrún Valvesdóttir – starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar

Kolbrún hefur unnið margvísleg störf um ævina en er nú í vinnu við umönnun aldraðra. Hún er fagmenntaður garðyrkjumaður en á erfitt með að sinna slíkum störfum eftir erfið slys. Hún hefur búið í Noregi og Danmörku og þekkir því lífskjör víðar en á Íslandi.

Skoðunarmenn reikninga

Anna Edvardsdóttir – starfsmaður  búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar

Kristinn Jónsson – starfsmaður Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks

Varamaður skoðunarmanna reikninga

Vairis Klavins – móttökuritari næturvakt á Hlemmi Square Hostel.

 

 

 

 

 

 

 

 

Kæru félagar,

verkafólk og láglaunafólk á Íslandi stendur á tímamótum. Við erum aftur komin í þá fáránlegu stöðu að sjá góðærið allt í kringum okkur en vera, eins og áður, í hópi þeirra sem fá ekki boðskort í veisluna. Munurinn er sá að nú vitum við að okkur verður aldrei boðið sæti við veisluborðið. Því segi ég: Við stöndum á tímamótum; ekki er lengur hægt að neita því, hvorki af okkur sjálfum né öðrum, að okkur er aðeins ætlað eitt hlutverk í íslensku samfélagi: Að vera ódýrt vinnuafl.

Á meðan þau sem eiga fjármagnið fá að sölsa, óáreitt, undir sig öll þau samfélagslegu gæði sem þeim sýnist er okkur áfram skammtað úr hnefa, nóg til þess að við getum haldið áfram að vinna en aldrei nóg til þess að við getum lifað sem frjálsar manneskjur.

Hvarvetna mætir okkur sú augljósa staðreynd að algjört skeytingarleysi ríkir um kjör okkar og aðstæður; ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur hafa í boði stéttafélagsins okkar aðgang að vinnuafli á útsöluverði. En við stöndum á tímamótum; við látum ekki lengur bjóða okkur mylsnuna af borðum þeirra sem halda að líf okkar sé einskis virði, við látum ekki lengur bjóða okkur að fá aldrei að njóta þeirra auðæfa sem við sköpum með vinnu okkar.

Kæru félagar, ég biðla til ykkar um að standa með okkur í baráttunni fyrir mannsæmandi lífi, fyrir lífsnauðsynlegri upprisu verkafólks.

Sameinuð getum við hafnað því að bera þyngstu byrðar samfélagsins á meðan auðstéttin bæði arðrænir okkur og grefur stöðugt undan velferðarkerfinu. Sameinuð getum við hafnað því að bera ábyrgð á stöðugleika í samfélaginu á meðan við fáum með engu að njóta efnahagslegs stöðugleika í eigin lífi. Sameinuð getum við hafnað því að skattbyrði okkar sé aukin á meðan hin ríku koma peningum undan í skattaskjól. Sameinuð getum við algjörlega og án þess að það geti misskilist, hafnað þeirri grimmilegu og sjúku láglaunastefnu sem okkar eigið stéttarfélag hefur samþykkt.

Mætumst í baráttunni fyrir því að vera eitthvað meira en ódýrt vinnuafl; krefjumst þess að fá það pláss í samfélaginu sem við eigum skilið. Látum ekki lengur bjóða okkur laun sem ekki er hægt að lifa af og húsnæðismarkað í klóm fjárfesta og braskara. Látum ekki lengur bjóða okkur brauðmola af borðum þeirra sem telja sig eiga allt samfélagið, hættum að sætta okkur við að til okkar sé kastað nokkrum þúsundköllum við og við á meðan ójöfnuður eykst stöðugt, án þess að nokkuð sé að gert.

Lítum til sögunnar og sjáum þá stóru sigra sem unnust vegna fjöldasamstöðu alþýðunnar; fólks sem þrátt fyrir að vera neytt til að lifa við hörmulegar aðstæður, reis upp og krafðist þess að fá pláss – krafðist þess að byggt yrði mannsæmandi húsnæði, krafðist þess að njóta frítíma rétt eins og hin ríku, krafðist þess að öll börn ættu rétt á menntun, krafðist þess að hér yrði smíðað velferðarsamfélag. Segjum sannleikann hátt og skýrt: Íslenskt verkafólk lagði grunninn að öllu því sem vel hefur verið gert á þessu landi.

Við höfum aðgang að einu magnaðasta og máttugasta vopni sem til er; risastóru verkalýðsfélagi, vopni sem bíður eftir því að vera notað í baráttunni gegn arðráni og fyrir efnahagslegu réttlæti, gegn ægivaldi fjármagnseigenda og fyrir lýðræði, og síðast en ekki síst; gegn svívirðilegri láglaunastefnu og fyrir mannsæmandi launum fyrir unna vinnu.

Kæru félagar, gangið til liðs við okkur og sameinuð gerum við Eflingu – stéttarfélag að verkalýðsfélagi sem sofnar aldrei á verðinum, verkalýðsfélagi fólks sem bíður ekki eftir boðskorti í veisluna heldur velur sér sjálft sæti við veisluborðið.

Sjáumst í baráttunni!

 

Stefnuyfirlýsing B-lista Sólveigar Önnu Jónsdóttur við stjórnarkjör Eflingar 2018

Við teljum að endurreisn róttækrar stéttabaráttu á Íslandi þoli enga bið. Ekkert tillit hefur verið tekið til lífs, þarfa og drauma verkafólks of lengi, á meðan auðstéttin öðlast sífellt meiri völd, með þeim afleiðingum að aðstæður okkar versna og bilið á milli þeirra sem telja sig eigendur allra auðæfa samfélagsins og þeirra sem ekkert eiga eykst sífellt.

Við þetta ástand verður ekki unað lengur: Rödd verkafólks þarf að heyrast; án hennar mun baráttan fyrir réttlæti og jöfnuði aldrei vinnast.

Fyrir meira en hundrað árum síðan, þegar Ísland var eitt fátækasta land Evrópu, voru hér stofnuð fyrstu verkalýðsfélögin. Með stórkostlegum samtakamætti og baráttuvilja tókst íslenskri alþýðu að bæta eigin lífskjör með ótrúlegum hætti og með kröfum sínum móta samfélagið allt. Vegna markvissrar og herskárrar stéttabaráttu verkafólks var hér komið á velferðarkerfi; með almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, fæðingarorlofi, almennri heilbrigðisþjónustu, menntun fyrir öll börn, mannsæmandi íbúðarhúsnæði og svo mætti lengi telja. Við fullyrðum að án róttækrar verkalýðsbaráttu hefðu lífskjör almennings aldrei batnað eins mikið og raun bar vitni.

Þó miklir sigrar hafi unnist og vinna verkafólks hafi byggt upp ríkt velferðarsamfélag er nú svo komið,

eftir linnulausa niðurrifsstarfsemi þeirra sem aðhyllast mannfjandsamlega hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar síðustu áratugi, að gríðarlegur ójöfnuður ríkir á Íslandi með skelfilegum afleiðingum fyrir frelsi og aðstæður þeirra sem tilheyra ekki efri lögum samfélagsins og þurfa að selja aðgang að vinnuafli sínu.

Við fullyrðum:

Eina leiðin til þess að snúa af ógæfubraut þeirri sem íslenskt samfélag er á, er endurvakning róttækrar stéttabaráttu. Stund sannleikans er runnin upp: Það mun enginn berjast fyrir bættum kjörum okkar nema við sjálf.

Við fullyrðum:

Efling, eitt fjölmennasta stéttarfélag á Íslandi, verkalýðsfélag láglaunafólks, á að leiða baráttuna.

Við fullyrðum:

Ef við, félagar Eflingar, sameinumst í kröfunni um að við fáum sannarlega að njóta ávaxtanna af öllu okkar striti mun sú einfalda staðreynd að fjöldi okkar er gríðarlegur gera það að verkum að ómögulegt verður að hundsa kröfur okkar um réttlæti.

Við munum af fullum krafti berjast gegn þeirri grimmilegu láglaunastefnu sem gegnsýrir íslenskt samfélag. Við sættum okkur ekki lengur við að vera nýtt sem vinnuafl sem knýr áfram hagvöxt án þess að fá nokkru sinni um frjálst höfuð strokið efnahagslega. Við ætlum að snúa vörn í sókn; Efling mun ekki lengur semja um taxta sem aðeins dæma fólk til áhyggna, strits og kvíða fyrir framtíðinni. Við höfnum rammasamkomulagi sem skerðir samningsfrelsi verkafólks en frjáls samningsréttur er mikilvægur hluti af verkalýðsbaráttu á Íslandi. Við teljum augljóst að Efling – stéttarfélag eigi að leiða baráttuna gegn arðráni og fyrir samfélagi jöfnuðar á Íslandi. Við munum krefjast efnahagslegs réttlætis: Mannsæmandi laun fyrir unna vinnu.

Við munum krefjast þess að tafarlaust verði farið í að bæta hið óþolandi ástand sem nú ríkir í húsnæðismálum alþýðunnar. Við teljum sjálfsagt og eðlilegt að bæði beiti Efling áhrifum sýnum til að knýja fram pólitískar lausnir á bráðavanda þeirra sem ekki hafa aðgang að öruggu og góðu húsnæði, á meðan stéttarfélagið leiðir jafnframt, í samstarfi við önnur verkalýðsfélög, uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis fyrir vinnandi fólk. Aðgangur að öruggu húsnæði eru grundvallarmannréttindi og uppbygging verkamannabústaða er algjört forgangsatriði. Við munum sækja fast að gripið verði strax til aðgerða og krafa okkar er skýr: Húsnæðiskerfi fyrir fólk, ekki fjármagn.

Við ætlum okkur að berjast fyrir bættri stöðu aðflutts verkafólks á íslenskum vinnumarkaði. Í miðju góðæri þeirra sem eiga fjármagnið og atvinnutækin horfumst við í augu við þá ömurlegu staðreynd að aðflutt verkafólk sem hingað kemur til að vinna lendir iðulega í aðstæðum sem eru með öllu óboðlegar; vinna langa og erfiða daga undir miklu álagi, fá ekki umsamin laun, verða fyrir margvíslegum brotum af hálfu atvinnurekenda og er gert að sætta sig við húsnæði sem engin manneskja á að þurfa að dvelja í.

Barátta verkafólks sem fætt er á Íslandi og þeirra sem hingað koma til að vinna er sameiginleg stéttabarátta gegn arðráni og níðingshætti, lífsnauðsynleg barátta fyrir því að við séum metin að verðleikum í samfélaginu.

Við munum berjast fyrir því að lífeyrissjóðirnir og stjórnir þeirra verði ekki lengur nýttir til þess að fjármagna ævintýri auðvaldsins. Við munum krefjast lýðræðisvæðingar lífeyrissjóðanna og fulls gagnsæis í allri ákvarðanatöku. Við munum taka á óráðsíu og yfirbyggingu sjóðanna; krafa okkar er að stjórnir þeirra verði ekki lengur leikvöllur þátttakenda í endalausu gróðabralli heldur vettvangur fyrir upplýsta umræðu og ákvarðanir teknar með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi. Lífeyrissjóðir okkar hafa alið á samfélagslegum ójöfnuði sem er auðvitað fráleitt; megin hlutverk þeirra er að tryggja launafólki góða framfærslu eftir að starfsævi lýkur og það verður ekki gert með gangrýnislausri þátttöku í efnahagskerfi kapítalismans.

Við munum krefjast þess að lífeyrissjóðir okkar verði nýttir til að byggja upp samfélag réttlætis; hámarksávöxtun er einskis virði ef hún er ávallt á kostnað lífskjara verkafólks.

Við munum berjast fyrir lýðræðisvæðingu Eflingar – stéttarfélags. Grípa þarf til markvissra aðgerða til að auka þátttöku þeirra sem í félaginu eru með slembivali í ráð og nefndir, með því að tryggja aðkomu félagsmanna að allri ákvarðanatöku og með því að dreifa ábyrgð innan félagsins og koma þannig í veg fyrir samþjöppun valds og möguleikann á spillingu. Við munum tryggja fullt aðgengi að upplýsingum um öll mál sem varða félagið og félagsmenn, á þeim tungumálum sem félagsmenn tala og með því að mennta félagsmenn um tilgang og hlutverk Eflingar. Við munum berjast fyrir því að fjármunir félagsins verði nýttir í að tryggja möguleika allra félagsmanna til þátttöku í starfi félagsins. Við höfnum alfarið því líkani foringjaræðis sem notast hefur verið við, þar sem fámennur hópur ræður efnahagslegum örlögum fjöldans og lítið sem ekkert er gert til þess að hvetja fólk til þátttöku í samningum og kosningum um kjör félagsmanna, svo dæmi sé tekið.

Við trúum því að efling lýðræðis innan félagsins sé grundvallaratriði þegar kemur að því að leiða baráttuna fyrir bættum kjörum verkafólks á Íslandi.

Við trúum því að aðeins með fjöldasamstöðu eigi verkafólk á Íslandi möguleika á að vinna raunverulega sigra í baráttunni við þau sem aðhyllast samfélagsgerð þar sem vinnuaflið vermir alltaf botnsætið þegar kemur að því að útdeila gæðum samfélagsins.

Við viljum því hvetja ykkur, félagsmenn í Eflingu, til að ganga til liðs við okkur í þeirri mikilvægu baráttu sem nú er þörf á að heyja. Við hvetjum ykkur til að ganga til liðs við okkur og gefa hinum sjálfsögðu og einföldu kröfum; um efnahagslega velsæld, um samfélag réttlætis og jöfnuðar, um góða og sanngjarna framtíð fyrir börnin okkar, um áhyggjulaust líf á efri árum, um að verkalýðsfélagið okkar, Efling, starfi að því markvisst að bæta lífskjör okkar, þvílíkan slagkraft að ekki sé framar mögulegt að láta sem vilji okkar sé einskis virði.

Við ætlum að berjast fyrir því að verkafólk fái allt það pláss í samfélaginu sem við eigum skilið og við vonum innilega að þið gangið til liðs við okkur í þeirri baráttu.

Sameinuð getum við látið drauminn um upprisu hinna vinnandi stétta rætast.

• Við berjumst gegn láglaunastefnu!

• Við munum berjast fyrir efnahagslegu réttlæti: Allt fólk lifi mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum!

• Við berjumst fyrir réttlæti í húsnæðismálum!

• Allt fólk á að hafa aðgang að ódýru og tryggu húsnæði. Uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis er grundvallaratriði í baráttunni. Við viljum húsnæðiskerfi sem þjónar fólki, ekki fjármagni!

• Við berjumst fyrir hagsmunum aðflutts verkafólks!

• Það er grundvallarkrafa að stjórn Eflingar endurspegli fjölbreytileika félagsmanna. Snúum öll bökum saman í baráttunni fyrir bættum kjörum!

• Við berjumst fyrir lýðræðisvæðingu!

• Við höfnum foringjaræði og samþjöppun valds á hendur fárra. Þátttaka félagsmanna er lykilatriði í því að snúa vörn í sókn í baráttunni fyrir góðu lífi á Íslandi!

• Við berjumst gegn óráðsíu og gróðabralli lífeyrissjóðanna!

• Lífeyrissjóði okkar á ekki að nota til að ala á samfélagslegum ójöfnuði. Við munum krefjast gagnsæis í ákvarðanatöku og þess að lífeyrissjóðir okkar verði nýttir til að byggja upp réttlátt samfélag!

 

 

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere