Launaþjófnaður og réttindabrot á veitingastöðum Elvars Ingimarssonar
Ef þú kaupir veitingar og þjónustu hjá Ítalíu eða Geitinni ert þú að fjármagna launaþjófnað, misnotkun vinnuafls og skattsvik.
Stjórn Eflingar stéttarfélags og verkafólk sem hefur þolað misnotkun og réttindabrot vilja vekja athygli þína, sem hugsanlegs viðskiptavinar, á þessum upplýsingum. Hugsaðu þig vel um áður en þú stígur inn fyrir.
- Vegna fjölmargra og alvarlegra brota gegn réttindum verkafólks sem hafa staðið yfir um lengri tíma á veitingastöðum sem reknir eru af Elvari Ingimarssyni hefur stjórn Eflingar – stéttarfélags ákveðið í samráði við starfsfólk að vekja athygli almennings á starfsháttum á þessum veitingastöðum.
- Veitingastaðirnir sem um ræðir hafa verið reknir á nokkrum mismunandi stöðum undir ólíkum nöfnum, mestmegnis í miðbæ Reykjavíkur. Þeir sem eru nú í rekstri eru Ítalía við Frakkastíg og Geitin í Garðabæ. Þeir sem eiga og/eða reka þessa veitingastaði eru Elvar Ingimarsson og viðskiptafélagi hans Björgvin Narfi Ásgeirsson.
- Í mörgum staðfestum tilvikum hafa starfsmenn ekki fengið laun sín þegar þau ber að greiða í lok mánaðar. Þess í stað hefur greiðslu launa verið seinkað um daga, vikur, mánuði og í sumum tilvikum ár. Þetta er brot á íslenskum lögum og veldur alvarlegum fjárhagslegum og persónulegum erfiðleikum í lífi verkafólks.
- Efling er með fjölmörg opin mál gegn fyrirtækjum Elvars Ingimarssonar, og þar af hafa 7 verið send til lögfræðistofu í innheimtu. Dæmi um brot eru síðbúnar launagreiðslur, að laun séu undir lágmarkslaunum, vanræksla á greiðslu launa á uppsagnarfresti, vanræksla á greiðslu launa fyrir yfirvinnu og vanræksla á að greiða skyldubundin iðgjöld til verkalýðsfélaga og sjóða þeirra.
- Í mörgum tilvikum hefur starfsfólk mætt erfiðleikum við að sækja réttindi sín vegna þess að gögn sem atvinnurekanda ber að veita eru ekki til staðar, svo sem ráðningarsamningar og tímaskýrslur. Óregla af þessu tagi, sem er markvisst beitt á þessum veitingastöðum, gerir það erfiðara en ella fyrir starfsfólk að sækja leiðréttingu á ranglega greiddum launum.
- Í stað þess að greiða stéttarfélagsiðgjöld til Eflingar, sem er stéttarfélag veitingastarfsfólks á höfuðborgarsvæðinu, hafa þessir veitingastaðir gefið út falsaða launaseðla sem gefa til kynna greiðslu á iðgjöldum til annars stéttarfélags, Félags lykilmanna. Félag lykilmanna, sem gerir enga kjarasamninga um störf á veitingastöðum, hefur staðfest við Eflingu að í þessum tilvikum hafi iðgjöldin aldrei borist til þeirra. Elvar Ingimarsson hefur þannig stungið stéttarfélagsiðgjöldum verkafólks í eigin vasa, sem er þjófnaður.
- Heildarfjöldi einstaklinga sem hafa verið með opin mál hjá Eflingu vegna ýmissa gerða af vinnumarkaðsbrotum á þessum veitingastöðum eru 38. Allir hafa svipaða sögu að segja.
- Elvar Ingimarsson á að baki feril skattsvika og vangreiðslu á opinberum gjöldum. Hann er er skráður í „alvarlegum vanskilum“ hjá Skattinum. Skuldir hans við hið opinbera, í innheimtu hjá Sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu, nema samanlagt meira en 17 milljónum króna.
Allt ofangreint hefur verið staðfest af Eflingu – stéttarfélagi á grunni opinberra gagna, vitnisburða frá verkafólki og skjala sem veitingastaðir Elvars hafa gefið út sjálfir.
Efling stéttarfélag.
Ályktun trúnaðarráðs
Á fundi trúnaðarráðs þann 12. september 2024 var samþykkt ályktun sem fordæmir misnotkun vinnuafls og launaþjófnað á veitingahúsinu Ítalíu. Eftir fundinn var gripið til samstöðuaðgerðar á Frakkastíg fyrir utan veitingahúsið. Álykun trúnaðarráðs í heild sinni er að finna hér.
Frásagnir Eflingarfélaga af réttindabrotum á veitingastöðum í eigu eða rekstri Elvars Ingimarssonar
Frásögn Eflingarfélagans Vitalii Shybka:
„Ég var ráðinn til starfa á veitingastaðnum Ítalíu í desember 2023. Ég var mjög ánægður með að hafa landað vinnunni en sú ánægja bráði fljótt af mér. Eftir að hafa unnið í mánuð fékk ég ekki greidd laun. Ég var tilneyddur að slá lán hjá vinum til að greiða leigu og kaupa í matinn.
Svona gekk þetta í hverjum einasta mánuði, rekstraraðilarnir greiddu ekki laun og ég neyddist til að fá lán. Þegar ég ræddi við rekstrarstjóra Ítalíu vísaði hann á Elvar [Ingimarsson], sem vísaði á bókarann, sem aftur vísaði á Elvar.
Umræddur Elvar sagði iðulega þegar ég ræddi við hann að ég ætti að prófa að setjast í hans stól, það væru einfaldlega engir peningar til að greiða mér laun.
Þetta hafði allt mjög vond áhrif á líf mitt. Vegna þessara fjárhagsvandræða komu brestir í samband mitt við kærustu mína sem ollu því að endingu að sambandinu lauk. Ég fann ekki aðra vinnu um töluvert langan tíma sökum þess að ég varð þunglyndur og neyddist til að sækja mér aðstoð fagfólks. Ég hætti störfum 26. maí og hef enn ekki fengið greitt að fullu.“
Vitalii er 24 ára gamall frá Úkraínu.
Frásögn Eflingarfélagans Erik Krištovčo:
„Mér var boðið starf árið 2023 sem vaktstjóri á veitingastaðnum Antico, en ég hafði áður unnið þar í aukavinnu með fram öðru starfi. Ég samdi um laun og vinnutíma en fékk aldrei ráðningarsamning, þrátt fyrir að hafa margsinnis gengið eftir því. Ég hafði þó ekki of miklar áhyggjur því að laun voru greidd með reglulegum hætti, en þó raunar aldrei á útborgunardegi heldur alltaf aðeins síðar. Það var auðvitað mjög óþægilegt sökum þess að það gerði mér erfitt fyrir með að borga leigu.
Eftir nokkurn tíma kom hins vegar í ljós að staðgreiðsla skatta sem dregin hafði verið af mér hafði ekki verið borguð til hins opinbera. Þá hafði persónuafsláttur minn verið ofnýttur frá þeim tíma að ég var í aukavinnu á Antico, þrátt fyrir að ég hefði óskað þess skýrt að ekki ætti að nýta hann þar yfirhöfuð.
Þetta olli mér miklum áhyggjum og reiði enda skuldaði ég nú Skattinum skyndilega um 550 þúsund krónur. Sökum þess að ég var að hefja nám hætti ég í starfinu 27. janúar síðastliðinn, skuldugur og án þess að hafa fengið greitt fyrir vinnu mína síðasta mánuðinn.
Ég fór margsinnis á fund Elvars [Ingimarssonar] og krafðist þess að laun yrðu greidd. Svarið var yfirleitt á þá leið að það yrði gert daginn eftir. Nú, 8 mánuðum síðar, hefur ekkert gerst í þeim málum og í sms-samskiptum við Elvar staðfesti hann við mig að hann hygðist ekki greiða mér þau laun sem mér ber, hvorki nú né síðar.“
Eric er 26 ara gamall frá Slóvakíu.
Frásögn Eflingarfélaga sem kýs að koma fram undir nafnleynd:
„Ég vann í einn og hálfan mánuð sem þjónn á veitingastaðnum Ítalíu síðastliðið vor. Ég fékk hins vegar ekki greidd laun fyrir apríl mánuð og eftir að hafa beðið þar til 5. maí eftir launagreiðslum ákvað ég að hætta þar störfum. Það gerði ég líka eftir að hafa heyrt frásagnir annarra starfsmanna sem lýstu því að þeir hefðu ekki fengið greidd laun að hluta eða öllu leyti, í sumum tilfellum svo mánuðum skipti. Ógreidd laun þeirra sumra voru að því er mér var sagt allt að ein milljón króna.
Til þessa dags hef ég enn ekki fengið greidd að fullu þau laun sem ég á rétt á. Um 40 prósent vantar upp á að svo hafi verið.“
Frásögn Eflingarfélaga sem kýs að koma fram undir nafnleynd:
„Ég vann á veitingastaðnum Ítalíu í júlí og ágúst árið 2023. Ég fékk greitt mjög lágt yfirvinnukaup og ég fékk ekki greitt yfirvinnukaup þegar ég vann á rauðum dögum heldur aðeins dagvinnukaup. Ég hef aldrei fengið sundurliðað yfirlit yfir vinnutíma mína en ég vann mjög mikla yfirvinnu, yfir 50 tíma í júlí. Þá var einnig dregið af mér félagsgjald í Eflingu sem var hins vegar aldrei greitt til stéttarfélagsins.
Að síðustu er rétt að nefna að yfirmaður á Ítalíu, og meðeigandi fyrirtækisins að því mér var sagt, var sínkt og heilagt að bjóða mér út í drykk, sem mér þótti mjög óþægilegt í ljósi þess að hann var bæði yfirmaður minn og mun eldri en ég.“
Frásögn Eflingarfélaga sem kýs að koma fram undir nafnleynd:
„Ég sá auglýst á Alfreð að verið væri að leita að fólki í aukavinnu svo ég ákvað að prófa og fór á Ítalíu. Þar var mér sagt að þau vildu að ég tæki reynsluvakt, að hámarki fjórar klukkustundir, og í staðinn fengi ég gjafakort að upphæð 10 þúsund krónur. Ég sagðist ekki vinna frítt en vildi gjarnan prófa starfið og það var samþykkt. Ég vann þar í þrjá tíma 23. mars síðastliðinn og að því loknu sagði vaktstjórinn að hann væri ánægður með mig og ég fengi starfið.
Eftir það reyndi ég ítrekað að hafa samband við stjórnendur til að spyrjast frekar fyrir um kjör og starfstíma en án árangurs. Mér var sagt að sá sem sæi um ráðningar hefði ekkert virkt símanúmer!
Mín skoðun er að þetta hafi verið skipulögð svik. Ég heyrði af því að verið væri að taka fjölda fólks í prufur og þeim væri launað með gjafakorti, sem svo reyndist ekki einu sinni vera upp á umræddar 10 þúsund krónur heldur aðeins 5 þúsund. Ég tók ekki við því og krafðist þess að fá greitt fyrir mína vinnu. Það hef ég ekki fengið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess.“
Frásögn Eflingarfélaga sem kýs að koma fram undir nafnleynd:
„Ég vann á veitingastaðnum Il Antico frá febrúar til maí árið 2023. Á þeim tíma drógust launagreiðslur úr hófi sem olli því að ég og eiginkona mín neyddumst til að flytja úr leiguíbúð sem við bjuggum í og í eitt leiguherbergi, því við gátum ekki staðið skil á leigunni. Ég fékk ekki greidd laun fyrr en löngu eftir að mér hafði verið sagt upp störfum og hefur þetta valdið miklum vandkvæðum mínu lífi.
Í desember á síðasta ári hafði rekstrarstjóri Antico samband við mig og bauð mér starf aðstoðarkokks á veitingastaðnum Ítalíu. Hann fullvissaði mig um að engin vandamál yrðu með greiðslu launa í þetta sinn. En því miður endurtók sagan sig. Launagreiðslur töfðust ítrekað og í hvert skipti sem ég innti Elvar [Ingimarsson] eftir því hvenær ég fengi greidd launin mín var svarið annað hvort á morgun (sem aldrei gerðist) eða þá að hann hefði enga fjármuni til að setja í launagreiðslur og ég ætti kannski bara að taka við hans starfi.
Ég vann á veitingastaðnum Ítalíu til 26. júní síðastliðinn. Enn sem komið er hef ég ekki fengið greidd laun að fullu fyrir maí mánuð og engin laun fengið fyrir júní.“
Fjölmiðlaumfjöllun
RÚV
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/aga0rs
Segir ógreidd laun upp á 3,8 milljónir í lögfræðiinnheimtu og fleiri mál í vinnslu – RÚV.is (ruv.is)
Aðgerðum Eflingar vegna Ítalíu engan veginn lokið – RÚV.is (ruv.is)
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-09-17-saga-eriks-sem-var-snudadur-um-launin-sin-422023
Mbl.is
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/12/sakar_eigandann_um_itrekud_brot
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/09/12/motmaela_fyrir_utan_italiu
Fólk sem er í „gríðarlegri erfiðri stöðu“ (mbl.is)
Visir.is
https://www.visir.is/k/a5800d19-05e5-4019-834e-b27947fc58c3-1726178060252
https://www.visir.is/g/20242620466d/-a-islandi-er-ekkert-mal-ad-stela-launum-
https://www.visir.is/g/20242620383d/motmaela-vid-veitingastadinn-italiu-vegna-meints-launathjofnadar
„Hann hefur fyrir vana að ráða fólk til vinnu en greiða þeim svo ekki laun“ – Vísir (visir.is)
Segir það alrangt að Elvar skuldi ekki nema tvær milljónir í laun – Vísir (visir.is)
Engin viðurlög við launaþjófnaði sem er mun víðtækari en við höldum – Útvarp – Vísir (visir.is)
DV
Sólveig segir Elvar ljúga – Skuldi skjólstæðingum Eflingar tvöfalt meira en hann viðurkennir – DV
Sólveig Anna segir frá skelfilegum aðstæðum starfsmanns Elvars – DV
Heimildin
https://heimildin.is/grein/22641/saka-eiganda-italiu-um-kjarasamningsbrot-og-launathjofnad