Almenn braut Eflingar

Í nóvember býðst félagsmönnum Eflingar að skrá sig á nýja Almenna braut Vitans – skóla Eflingar. Á Almennu brautinni er boðið upp á efnisrík og spennandi námskeið sem miða að því að styrkja þekkingu, vitund og sjálfstraust félagsmanna í stéttabaráttu. 

Námið spannar fjórar vikur þar sem kennt er á íslensku á þriðjudögum og ensku á miðvikudögum, kl. 19.00-22.00 í Félagsheimili Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð.

Umsjónarfólk námskeiðanna eru öll einstaklingar með mikla reynslu og þekkingu á sínu sviði, og sem tengist beint raunveruleika og hagsmunum Eflingarfélaga. Lögð er áhersla á að gera námið aðgengilegt og líflegt með umræðum og uppbroti í kennsluaðferðum. 

Almenna brautin er opin öllum félagsmönnum Eflingar og þeim að kostnaðarlausu.

Engar forkröfur eru aðrar en forvitni og áhugi um viðfangsefni námskeiðanna og að greitt hafi verið iðgjald til Eflingar í að lágmarki þrjá mánuði síðustu sex mánuði. 

Ekki er gert ráð fyrir neinu heimanámi heldur er nóg að mæta á staðinn þar sem öll kennslugögn verða afhent. 

Nemendur fá viðurkenningarskjal og gjafapoka að námi loknu. 

Skráning á efling@efling.is eða í síma: 510 7500

Almenn braut á íslensku: 2., 9., 16. og 23. nóvember 2021 kl. 19:00–22:00.

Almenn braut á ensku: 3., 10., 17. og 24. nóvember 2021 kl. 19:00–22:00.

Hluti 1

Stéttaskipting og ójöfnuður

Kennari: Guðmundur Oddsson, dósent við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í stéttarannsóknum. Hann er með doktorspróf í félagsfræði frá Missouri háskóla í Columbia-borg í Bandaríkjunum.

Guðmundur fjallar um birtingarmyndir stéttaskiptingar og ójafnaðar, vitund okkar um stéttaskiptingu og áhrif hennar. Kynntar eru helstu kenningar félagsfræðinnar um stéttaskiptingu og hvernig má heimfæra þær upp á veruleika íslensks verka- og láglaunafólks. Notast er við æfingar og hlutverkaleiki til að glæða kennsluna lífi.

Íslenska: þriðjudagur, 2. nóvember, kl. 19.00-22.00
Enska: miðvikudagur, 3. nóvember, kl. 19.00-22.00

Hluti 2

Stétt gegn stétt: Þættir úr sögu verkalýðsbaráttu, vinnumarkaðar og lífskjara á Íslandi

Kennari: Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi og prófessor emeritus í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann er höfundur fjölda bóka á sviði lífskjararannsókna, þar á meðal bókarinnar Ójöfnuður á Íslandi. 

Stefán fjallar um áhrif verkalýðsbaráttu á þróun lífskjara og velferðar á Íslandi í gegnum 20. öldina og fram á þennan dag, samspil hennar við stjórnmálin og ólíka hugmyndafræðilega strauma í áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrirlesturinn er byggður á bók sem Stefán er með í smíðum fyrir Eflingu um þetta viðfangsefni.

Jafnréttismál og verkalýðshreyfingin

Kennari: Fríða Rós Valdimarsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá Eflingu-stéttarfélagi. Hún hefur starfað lengi innan kvennahreyfingarinnar og sinnt fjölbreyttum störfum tengdum jafnréttismálum. 

Fríða Rós fer yfir jafnréttismál  í breiðum skilningi og mikilvægi þess að gera grein fyrir fjölbreyttum þörfum ólíkra jaðarhópa bæði í innra starfi verkalýðshreyfingarinnar og í baráttumálum hennar út á við.

Íslenska: þriðjudagur, 9. nóvember, kl. 19.00-22.00
Enska: miðvikudagur, 10. nóvember, kl. 19.00-22.00

Hluti 3 

Jafnréttismál og verkalýðshreyfingin frh.

Kennari: Fríða Rós Valdimarsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá Eflingu-stéttarfélagi. 

Ómissandi en undirsett: Hin sérstaka barátta verka- og láglaunafólks

Kennarar: Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags og fyrrum starfsmaður á leikskóla hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur tekið þátt í ýmis konar samfélagsbaráttu, meðal annars gegn heimsvaldastefnu og auðvaldi. 
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsmála hjá Eflingu. Hann hefur starfað í ýmsum félagasamtökum tengdum samfélagslegu réttlæti.

Sólveig Anna og Viðar ræða um sérstöðu verka- og láglaunafólks bæði innan heildarsamtaka vinnandi fólks og gagnvart íslenska auðvaldskerfinu. Rætt verður um hvers vegna ýmis hagsmunaöfl þrýsta á um SALEK-samkomulag og útskýrt hvers vegna slíkt fyrirkomulag þjóni ekki hagsmunum Eflingarfélaga. Í leiðinni er fjallað um stöðu Eflingar innan heildarsamtaka vinnandi fólks og hvaða möguleika félagið hefur þar til áhrifa.

Íslenska: þriðjudagur, 16. nóvember, kl. 19.00-22.00
Enska: miðvikudagur, 17. nóvember, kl. 19.00-22.00

Hluti 4

Fjöldi, samstaða, sýnileiki – leið Eflingar í kjarabaráttu

Kennarar: Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsmála. 

Sólveig Anna og Viðar fjalla um þá braut sem Efling hefur rutt síðustu árin í að endurvekja kjarabaráttu verka- og láglaunafólks úr dvala. Fjallað verður um þær aðferðir sem nýst hafa best, og hvernig félagið hefur nýtt sér þekkingu úr gamalli og nýrri sögu verkalýðsbaráttu um allan heim. Þátttakendur fá undirbúning fyrir þátttöku í baráttu bæði inni á vinnustað og í sameiginlegri baráttu í kjaraviðræðum og verkföllum.

Tjáning, framkoma og sjálfsöryggi

Kennari: Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og formaður Félags leikstjóra á Íslandi, hefur starfað á vettvangi stéttar- og fagfélaga listamanna um árabil, auk þess sem hún á að baki fjölbreyttan feril í  sviðslistum sem leikari og leikstjóri.

Kolbrún veitir þjálfun í framkomu og hvernig byggja má upp sjálfsöryggi. Kennslan er sniðin að þeim aðstæðum sem mæta verka- og láglaunafólki í samskiptum við atvinnurekendur og við hvert annað í baráttu.

Íslenska: þriðjudagur, 23. nóvember, kl. 19.00-22.00
Enska: miðvikudagur, 24. nóvember, kl. 19.00-22.00

Námskeið á dagskrá