Hverjir eiga rétt á sjúkradagpeningum – og hvernig reiknast greiðslur?
Félagsmaður á rétt á dagpeningum úr sjóðnum ef greitt er af honum til Sjúkrasjóðsins í a.m.k. sex síðustu mánuði áður en hann verður launalaus vegna veikinda/slysa. Sjóðfélagar eru þeir sem launagreiðendur greiða af umsamið iðgjald af launum til sjóðsins.
Umsamið iðgjald er mismunandi eftir launagreiðendum
Á almennum markaði greiða atvinnurekendur 1% til sjóðsins. Opinber fyrirtæki þ.e. ríki, sveitarfélög, sjálfseignastofnanir svo sem hjúkrunar- og dvalarheimili og einkareknir leikskólar, greiða lægra iðgjald til sjóðsins og eiga starfsmenn þeirra í staðinn mun lengri veikindarétt en á almennum markaði, en þeir eiga aftur skemmri rétt til greiðslna dagpeninga hjá sjóðnum.
Dagpeningar eru tekjutengdir
Greitt er 80% af meðallaunum miðað við iðgjaldaskil í sjóðinn næstliðna 6 mánuði áður en sjóðfélagi varð launalaus vegna veikinda, þó ekki af hærri upphæð en sem nemur kr. 801.624- til jafnaðar á mánuði, að frádregnum dagpeningum frá Sjúkratryggingum.
Skemmri aðild
Ef aðild að sjóðnum er skemmri en 6 samfelldir mánuðir hefur félagsmaður ekki rétt á dagpeningum, nema um sé að ræða að sjóðfélagi hafi komið beint til Eflingar úr öðru félagi innan ASÍ.
Flutningur frá öðru félagi innan ASÍ / BSRB
Flutningur réttinda frá öðru verkalýðsfélagi innan Alþýðusambands Íslands eða BSRB getur átt sér stað ef greitt hefur verið til sjóðsins af viðkomandi í a.m.k. einn mánuð og til annars sjúkrasjóðs hjá félagi innan ASÍ eða BSRB í a.m.k. sex næstu mánuði þar á undan. Þá er deilt með mánaðafjölda hjá Eflingu, sé þannig um 6 mánaða samfellda aðild að ræða í tveimur eða fleiri félögum áður en sjóðfélagi varð launalaus vegna veikinda.
100% tekjutenging
Ef samfelld sjóðfélagsaðild er 5 ár eða lengri, getur tekjutengingin að viðbættum dagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands numið allt að 100% tekjutapi þó að hámarki kr.966.319- á mánuði. Þeir félagsmenn sem uppfylla þetta skilyrði eiga rétt á dagpeningum í allt að 6 mánuði.
Greiðslur til sjóðsins þurfa að hafa borist að lágmarki í 54 af sl. 60 mánuðum til þess að uppfylla þetta skilyrði.
Greiðslutími er mismunandi eftir launagreiðendum og/eða aðild
Dagpeningar eru greiddir í allt að 4 mánuði vegna sjóðfélaga á almennum markaði en í 3 mánuði hjá launagreiðanda sem greiðir minna en 1% iðgjald til sjóðsins s. s. Ríki, sveitarfélög og sjálfseignastofnanir.
Frá hvaða tíma greiðast dagpeningar?
Réttur stofnast frá og með þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur.
Félagsgjald er reiknað af dagpeningum
Til að viðhalda réttindum hjá öðrum sjóðum félagsins, svo sem hjá orlofs- og fræðslusjóðum er reiknað 0,7% félagsgjald af dagpeningum.
Hvenær eru dagpeningar ekki greiddir?
Dagpeningar eru einungis greiddir tímabundið til þeirra sem verða launalausir vegna veikinda og eiga ekki rétt á öðrum greiðslum en sjúkradagpeningum Sjúkrasjóðs og dagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands. Ekki er greitt þegar/ef sjóðfélagi öðlast rétt til greiðslna frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóði svo sem örorkubætur-endurhæfingarlífeyrir/ ellilífeyrir/eftirlaun. Þá er ekki greitt vegna bótaskyldra slysa s.s. umferðarslysa sem teljast lögboðnar greiðslur og ber því tryggingafélagi að greiða þolanda tímabundið atvinnutjón. Réttur til sjúkrabóta og dagpeninga fyrnist sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að réttur til greiðslu þeirra skapaðist.
Endurnýjun dagpeningaréttar
Réttur til dagpeninga endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum lýkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju, sbr. regla ASÍ þar um.
Tímalengd dagpeninga, skilyrði og tegundir – Sjóðfélagi sem starfar á almennum markaði
Tímalengd dagpeninga, skilyrði og tegundir
Sjóðfélagi sem starfar á almennum markaði (þ.e. launagreiðandi sem greiðir 1% til sjóðsins)
- Dagpeningar í allt að 180 daga vegna eigin veikinda eða slysa.
- Veikindi barna: Dagpeningar í allt að 180 daga.
- Veikindi maka: Dagpeningar í allt að 90 daga enda sé samfelld aðild a.m.k. 12 mánuðir eða lengri.
- Vegna veikinda móður á meðgöngu er greitt út sjöunda mánuð meðgöngu, þó ekki lengur en skv. fyrrgreindum reglum. Kona getur sótt um allt að tveggja mánaða lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu án þess að skerða rétt sinn til fæðingarorlofs eftir fæðingu skv. ákvæðum laga nr. 95/2000.
- Áfengis- eða vímuefnameðferð: Dagpeningar í allt að 90 daga.
Framhaldsgreiðslur vegna lengri veikinda eða slysa
Í sérstökum tilvikum og að höfðu samráði við starfsendurhæfingarráðgjafa og/eða trúnaðarlækni sjóðsins er heimilt að greiða sjóðfélaga sem starfað hefur á almennum markaði allt að 120 daga til viðbótar, enda eigi sjóðfélagi ekki rétt á öðrum greiðslum svo sem örorku-, endurhæfingarlífeyri eða ellilífeyri og eru þá greiddir dagpeningar miðað við lágmarkstekjur.
Tímalengd dagpeninga, skilyrði og tegundir – Sjóðfélagi sem starfar hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum
Tímalengd dagpeninga, skilyrði og tegundir – Sjóðfélagi sem starfar hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem greiða lægra en 1% iðgjald til sjóðsins og eiga lengri veikindarétt hjá atvinnurekanda (Fjölskyldu- og styrktarsjóður).
- Dagpeningar í allt að 90 daga vegna eigin veikinda eða slysa.
- Vegna veikinda barna: Dagpeningar í allt að 180 daga.
- Veikindi maka: Dagpeningar í allt að 90 daga, enda sé samfelld aðild a.m.k. 12 mánuðir eða lengri.
- Vegna veikinda móður á meðgöngu er greitt út sjöunda mánuð meðgöngu, þó ekki lengur en skv. fyrrgreindum reglum. Kona getur sótt um allt að tveggja mánaða lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu án þess að skerða rétt sinn til fæðingarorlofs eftir fæðingu skv. ákvæðum laga nr. 95/2000.
- Áfengis og vímuefnameðferð: Dagpeningar í allt að 90 daga.
Framhaldsgreiðslur vegna lengri veikinda eða slysa
Fylgir á undan í sérstökum tilvikum og að höfðu samráði við starfsendurhæfingarráðgjafa og/eða trúnaðarlækni sjóðsins er heimilt að greiða sjóðfélaga sem greitt hefur verið af minna en 1% iðgjald til sjóðsins í allt að 90 daga til viðbótar, enda eigi sjóðfélagi ekki rétt á öðrum greiðslum svo sem örorku-, endurhæfingarlífeyri eða ellilífeyri og eru þá greiddir dagpeningar miðað við lágmarkstekjur.
Gögn sem þurfa að fylgja umsókn
o Ljósrit af sjúkradagpeningavottorði frá lækni. Ef einnig er sótt um dagpeninga til Sjúkratrygginga Íslands, þarf frumrit af sjúkradagpeningavottorði að fylgja þeirri umsókn.
o Starfsvottorð frá vinnuveitanda þar sem fram kemur starfstími hans og starfshlutfall næstliðinna 6 mánaða og hvaða dag viðkomandi varð launalaus vegna veikinda/slyss og hve margir veikindadagar voru nýttir.
o Ljósrit af síðasta launaseðli
o Upplýsingar um hvort/ hvernig eigi að nýta persónuafslátt (skattkort).
Til að sannreyna rétt sjóðfélaga þarf sjóðstjórn jafnframt upplýsingar um aðrar greiðslur ef þær eru fyrir hendi, svo sem frá Tryggingastofnun, lífeyrissjóði eða tryggingafélagi.
Í lengri veikindum ber sjóðfélaga að skila læknisvottorði á a.m.k. tveggja mánaða fresti.
Reglur um læknisvottorð
- Umsókn um sjúkradagpeninga skjal fylgja ljósrit af sjúkradagpeningavottorði frá lækni, upprunnið í tölvukerfum heilsugæslunnar og spítalanna.
- Fyrsta vottorð þarf að vera íslenskt sjúkradagpeningavottorð. Framhaldsvottorð þurfa einnig að vera íslensk sjúkradagpeningavottorð.
- Heimilt er að skila erlendu fyrsta vottorði ef félagsmaður veikist skyndilega í fríi erlendis. Félagsmaður þarf að færa sönnur fyrir því að um fyrirfram ákveðið frí erlendis hafi verið að ræða.
Réttur hjá Sjúkratryggingum Íslands
Jafnframt dagpeningagreiðslum frá Sjúkrasjóðnum eiga sjóðfélagar rétt á sjúkra- eða slysadagpeningagreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands.
Tilkynningaskylda sjóðfélaga
Sjóðfélaga er skylt að láta sjóðinn vita þegar hann verður vinnufær á ný eða öðlast rétt til bóta frá öðrum aðilum svo sem lífeyrissjóði eða Tryggingastofnun að viðlögðum réttindamissi. Ofgreidda dagpeninga ber sjóðfélaga að endurgreiða sjóðnum.
Afturvirkni greiðslna
Heimilt er að úrskurða sjúkrabætur afturvirkt í allt að 3 mánuði frá því að umsókn barst sjóðnum.
Fyrning réttinda
Réttur til bóta eða styrkja úr sjóðnum fyrnast sé ekki sótt um innan 12 mánaða frá því rétturinn skapaðist.